100.000 með virk rafræn skilríki

Frá blaðamannafundi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson …
Frá blaðamannafundi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra boðuðu til til að kynna aðgerðir stjórnvalda til skuldaleiðréttingar. mbl.is/Ómar

Ákveðið hefur verið að nýta rafræn skilríki til undirritunar á ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar í tengslum við aðgerðir stjórnvalda um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Nú þegar eru hátt í 100 þúsund manns með virk rafræn skilríki og hafa símafélög lýst því að þau verða reiðubúin með lausnir fyrir viðskiptavini sína.

Enginn eða óverulegur kostnaður hlýst af því fyrir einstaklinga að útvega sér slík skilríki og verður þeirra ekki þörf fyrr en að loknum útreikningi, að því er fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu í kjölfar fyrirspurnar frá mbl.is í dag.

Fram kemur, að ákvörðun um nýtingu rafrænna skilríkja sé tekin til að tryggja öryggi umsækjenda og efla örugg rafræn viðskipti á Íslandi. Skilríki eru fáanleg á öllum farsímum og kortum. Þá segir, að þau séu þægileg og einföld í notkun, einungis þurfi eitt 4-8 stafa númer. Það þýðir að ekki þarf lengur að muna mörg notendanöfn og misflókin lykilorð, sem auki þægindi notenda. 

„Rafræn skilríki veita aðgang að vel á annað hundrað síðum og eru þau einu rafrænu auðkennin sem hægt er að nýta til fullgildrar undirritunar. Stefnt er að stóraukinni notkun rafrænna skilríkja og að þau verði meginauðkenningarleið fólks vegna ýmiss konar rafrænnar þjónustu og viðskipta á netinu. Skilríkin verður hægt að nálgast hjá símafélögum, viðskiptabönkum, sparisjóðum og Auðkenni sem býður lausn fyrir þá sem kjósa að vera ekki með rafræn skilríki á farsíma eða korti,“ segir í tilkynningu.

Verðskrá Auðkennis endurskoðuð

Fjallað var um rafræn skilríki á vef mbl.is í gærkvöldi. Þar kom fram, að Síminn væri eina síma­fyr­ir­tækið sem byði upp á þessa rafræn skilríki. Loka­kost­ur­inn væri þá kort frá Auðkenni, en það þyrfti að kaupa og væri verðið á slíku skil­ríki 10.990 krón­ur fyr­ir 1 ár.

Har­ald­ur A. Bjarna­son, fram­kvæmda­stjóri Auðkenn­is, sendi frá sér tilkynningu í dag, þar sem fram kemur að fleiri símafélög komi til með að koma að verkefninu og jafnframt hafi verðskrá Auðkennis verið endurskoðuð. 

„Markmið Auðkennis er að flestir nýti sér rafræn skilríki á farsímum sem fyrirtækið afhendir nú endurgjaldslaust. Viðskiptavinum Símans hefur staðið SIM kort fyrir rafræn skilríki til boða í tæplega eitt ár og hefur fjöldi viðskiptavina nú þegar tekið skilríkin í notkun. Viðskiptavinir Vodafone geta nálgast SIM kort ásamt leiðbeiningum um hvernig eigi að virkja þau, á næstu dögum. Þegar er hafin vinna við innleiðingu lausnarinnar hjá Nova og Tal.

Um 220 þúsund einstaklingar eru nú þegar með debetkort sem innihalda rafræn skilríki. Af þeim eru hátt í 100 þúsund með virk skilríki.

Á meðan verkefnið um skuldaleiðréttingu stendur yfir, mun Auðkenni bjóða þeim, sem geta ekki eða velja að vera ekki með rafræn skilríki á farsíma, einkaskilríki á 1.500 kr.,“ segir Haraldur í tilkynningu.

Rafræn skilríki nauðsynleg í skuldaleiðréttingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert