Ekki kerfinu um að kenna

Christian Erikstrup, sölustjóri Trapeze í Danmörku
Christian Erikstrup, sölustjóri Trapeze í Danmörku

„Væntingar fatlaðs fólks til nýja kerfisins voru miklar og það hefur ekki náð að standa undir þeim væntingum, því miður,“ segir Christian Erikstrup, sölustjóri Trapeze í Danmörku, sem var staddur hér á landi í boði Neyðarstjórnar Strætó til að fara yfir nýja kerfið sem ferðaþjónusta fatlaðra tók í notkun um áramótin en kerfið er frá Trapeze.


Innleiðing kerfisins hefur ekki gengið sem skyldi og nánast stöðugar fréttir hafa verið fluttar af notendum þjónustunnar - flestar neikvæðar. Eftir að Ólöf Þorbjörg gleymdist í bíl frá ferðaþjónustu fatlaðra í sjö klukkustundir var sett neyðarstjórn yfir þjónustuna og Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar falið að gera óháða úttekt á aðdraganda, innleiðingu og framkvæmd ferðaþjónustunnar.


Erikstrup segir að þau atvik sem hafa verið í fréttum undanfarin misseri séu vegna mannlegra mistaka og komi ekki til vegna þess að kerfið sé lélegt. „Mér var boðið, í boði neyðarstjórnarinnar, að gefa álit og skoða umfang verkefnisins. Við höfum rætt þróun mála og atburðina sem hafa verið í fréttum. Atburðirnir eru skelfilegir en ekki við kerfið að sakast.“

Góð reynsla af kerfinu
Trapeze er mjög stórt alþjóðlegt fyrirtæki með yfir tvö þúsund starfsmenn og starfsstöðvar í Englandi, Ástralíu, Evrópu og Norður-Ameríku. Það sérhæfir sig í búnaði fyrir strætó, skólaakstur, lestarferðir og aðrar almenningssamgöngur.
Kerfið, líkt og er í notkun hér á landi er víða í notkun og það er góð reynsla af því, segir Erikstrup.


„Það er góð reynsla af því í Skandinavíu, það er notað víða í Evrópu við góðan orðstír og einnig í Norður-Ameríku þar sem höfuðstöðvar Trapeze eru. Það var hluti af minni ráðgjöf að útskýra að við erum með svipuð verkefni um víða veröld og búin að vera með þau undanfarin 10-15 ár.“
Bent hefur verið á að hið nýja kerfi komi fram við fatlaða líkt og böggla í póstþjónustu og sé því ekkert annað en póstþjónustukerfi. Þetta blæs Erikstrup á.

„Við fórum yfir greinina sem birtist í Morgunblaðinu á þriðjudag frá þeim sem gerðu gamla kerfið. Það eru eðlilegar gagnrýnisraddir. Þeir eru að reyna að skapa neikvæðar fréttir í kringum kerfið því þeir hafa einhverja fjárhagslega hagsmuni af því. Ég hef litlar áhyggjur af því.“
Erikstrup fór af landi brott í gær en eftir verður verkefnisráðgjafi frá Trapeze til að aðstoða Strætó og neyðarstjórnina að koma ferðaþjónustu fatlaðra til vegs og virðingar á ný.

Fáar jákvæðar fréttir hafa borist um Ferðaþjónustu fatlaðra síðan nýtt …
Fáar jákvæðar fréttir hafa borist um Ferðaþjónustu fatlaðra síðan nýtt kerfi var sett á laggirnar. KRISTINN INGVARSSON
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert