Fötluð stúlka skilaði sér ekki heim

Leit fór í gang seinnipartinn í dag að 11 ára fatlaðri stúlku sem hafði nýtt sér þjónustu Ferðaþjónustu fatlaðra en hafði ekki skilað sér heim til sín á réttum tíma. Samkvæmt heimildum mbl.is fékk stúlkan inni hjá nágrannafólki þar til haft var uppi á henni. Málið mun þegar vera til skoðunar hjá Strætó.

Málefni Ferðaþjónustu fatlaðra hafa verið mikið til umfjöllunar að undanförnu og var skipuð sérstök neyðarstjórn til þess að yfirfara starfsemina í kjölfar mála þar sem skjólstæðingar þjónustunnar hafa ekki fengið þá þjónustu sem þeir hafa átt rétt á. Dæmi eru um að fötluðum einstaklingum hafi meðal annars verið ekið á ranga staði og verið skildir þar eftir. Þá kom upp mál fyrir skömmu þar sem fötluð stúlka gleymdist í bifreið á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra.

Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó, segir í tilkynningu til fjölmiðla að ungur notandi Ferðaþjónustu fatlaðra hafi ekki skilað sér heim til síns sídegis í dag og hafi í kjölfarið verið brugðist við í samræmi við alvarleika málsins. Í ljós hafi komið að stúlkan hafði farið til nágrannakonu í sama fjölbýlishúsi og hún býr í.

„Málið hefur þegar verið tekið til athugunar hjá neyðarstjórn ferðaþjónustu fatlaðs fólks og Strætó bs. enda er það litið alvarlegum augum. Við fyrstu athugun virðist verklagsreglum ekki hafa verið fylgt þegar notanda þjónustunnar var ekið til síns heima og ekki komið í öruggar hendur foreldra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert