Rúturnar áttu að vera komnar í hús

Fjölda rúta var lagt fyrir utan verslunarmiðstöðina í Hveragerði þar …
Fjölda rúta var lagt fyrir utan verslunarmiðstöðina í Hveragerði þar sem þær biðu af sér veðrið í gær. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir

Ferðaþjónustufyrirtæki hefðu átt að tryggja að rútur þeirra væru komnar í hús áður en óveðrið í gær skall á, að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi. Töluvert af ferðamönnum voru strandaðir á ferðamannastöðum vegna veðursins. Oddur segir það ekki í boði að menn túlki veðurspár sér í hag.

Fjöldi manns var innlyksa vegna veðursins sem skall á upp úr hádegi í gær í Hveragerði og Selfossi en einnig við ferðamannastaði á Suðurlandi eins og Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Veðurstofan, Vegagerðin og lögreglan var búin að vara við storminum og að ferðalög yrðu erfið eða ómöguleg yfir heiðar og fjallvegi.

„Þegar búið er að gefa út viðvaranir eins og fyrir daginn í gær, þar sem var óvenjuvond veðurspá sem síðan gekk eftir, tel ég að ábyrgð ferðaþjónustunnar sé mikil og menn eigi að gæta að sér í þessum efnum. Ég hefði talið að ferðaþjónustufyrirtæki hefðu átt að tryggja það að rútur væru komnar í hús áður en þetta óveður skall á,“ segir Oddur.

Einn forsvarsmaður ferðaþjónustufyrirtækis sem mbl.is talaði við í morgun sagði að þegar ákvörðun var tekin um að senda rútur út í gærmorgun hafi veðurspáin gert ráð fyrir hvelli sem myndi ganga yfir á þremur tímum. Því hafi verið tekin ákvörðun um að senda þær af stað.

„Það er ekki í samræmi við þær viðvaranir sem lögregla, Vegagerð eða Veðurstofa gáfu út. Það er ekki í boði þegar spáð er svona vondu veðri að túlka einhverjar spár sér í hag mjög þunnt. Menn verða bara að hafa varann á sér,“ segir Oddur.

Veruleg hætta á að illa fari

Á meðan fólk heldur sig inni í bílunum er ekki mikil hætta á ferðum þegar bíla festa í óveðri eins og því sem gekk yfir í gær, að sögn Odds. Hins vegar sé það staðreynd að þegar bílar séu stopp á vegi sé alltaf slysahætta fyrir hendi.

„Fólk getur verið fótgangandi að reyna að losa bíla eða verið á milli bíla sem hafa lent saman í árekstri. Ef það verður annar árekstur þá getur fólk klemmst á milli bíla eða það getur verið hætta á að það sé ekið á gangandi í afleitu skyggni. Sannarlega við þessar aðstæður eru veruleg hætta á að illa fari þó að það hafi ekki gerst í gær,“ segir hann.

Oddur nefnir einnig hlut ferðamanna sem voru á eigin vegum á bílaleigubílum. Þó ekki megi taka ábyrgð fólks á eigin gjörðum af því þá sé spurning hvort ekki þurfi að gera átak í að upplýsa ferðamenn á aðgengilegan hátt um þegar veður af þessu tagi sé framundan.

Hér má sjá frétt sem birtist á mbl.is á mánudagskvöld þar sem varað var við óveðrinu.

Fyrri frétt mbl.is: Verslunarmiðstöð varð að neyðarskýli

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert