Tvær þyrlur skiptu sköpum

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar tóku þátt í björgunaraðgerðum við ósa Þjórsár í gærkvöldi þar sem leitað var að tveimur kajakræðurum eins og mbl.is hefur fjallað um og er það mat lögreglumanna sem voru á staðnum að það hafi skipt sköpum í björgunaraðgerðunum.

Víðtæk leit var gerð að mönnunum tveimur og voru björgunarsveitir af Suðurlandi, úr Vestmannaeyjum og frá Reykjavík ræstar út. Samtals 45 manns. Þar á meðal sérhæft lið frá Reykjavík með dróna. Var um tíma óttast að annar mannanna væri látinn.

Frétt mbl.is: Kajakræðararnir heilir á húfi

Fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi að tilkynning hafi borist klukkan 21:13 í gærkvöld um að tveir menn væru í vandræðum á kajökum í briminu við ósinn. Þyrlurnar, björgunarsveitir, sjúkralið og lögregla hafi þegar farið á staðinn.

„Þegar björgunarlið kom á vettvang sáust kajakarnir á hvolfi austan við ósinn. Allan tímann var símasamband við annan manninn og þyrluáhafnirnar sáu til mannanna í briminu mun vestar. Það tókst að hífa annan manninn upp í aðra þyrluna og hinn síðar í hina þyrluna.“

Frétt mbl.is: Víðtæk leit að kajakræðurum

Flogið var síðan með mennina á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík. Fram kemur að ekki sé vitað um líðan mannanna en lögreglan á Suðurlandi fari með rannsókn slyssins. Fyrir vikið sé ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Enn fremur segir að ölduhæð hafi verið svo mikil að ekki hafi verið mögulegt að koma út björgunarbátum. „Það er mat lögreglumanna á staðnum að það hafi skipt sköpum við björgunina að tvær þyrlur hafi komið á staðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert