Góð reynsla af viðvörunarkerfinu

Stormar, snjókoma og rigningar hafa sett svip sinn á veðrið …
Stormar, snjókoma og rigningar hafa sett svip sinn á veðrið undanfarið og viðvaranir Veðurstofu samkvæmt nýju kerfi hafa verið algengar. mbl.is/Eggert

Góð reynsla er af viðvörunarkerfinu sem Veðurstofan tók upp í byrjun nóvember, að sögn Elínar Bjarkar Jónasdóttur, veðurfræðings og hópstjóra veðurþjónustu á Veðurstofunni. Á þessum tíma hefur mátt sjá appelsínugular viðvaranir hátt í tíu sinnum, en þá hefur verið talið að veðrið gæti haft samfélagsleg áhrif og erfiðleika í för með sér.

Gular viðvaranir hafa á þessum tíma nánast verið daglegt brauð og varla liðið sá veðurfréttatími í sjónvarpi þar sem ekki hefur mátt sjá gult viðvörunarmerki blakta vegna storms eða úrhellis einhvers staðar á landinu. Enn hefur Veðurstofan ekki gefið út rauða viðvörun um óveður af sjaldgæfum styrk, en það er hæsta stigið.

Fólk skilur þessar viðvaranir

„Samstarf okkar við Almannavarnir hefur verið framúrskarandi á þessum tíma, en við höfum unnið náið með þeim, Landsbjörg og Vegagerðinni,“ segir Elín Björk. „Fólk skilur þessar viðvaranir og veit að appelsínugult er orðið meira heldur en almennt veðurfar þar sem allir komast að mestu leiðar sinnar ef farið er með gát. Kerfið er samevrópskt og ferðamenn frá Evrópu þekkja að birtist appelsínugul viðvörun er það eitthvað sem þarf að skoða.

Ég hef heyrt frá tryggingafélögum, sem nota kerfið til sinna starfa, að færri tjónatilkynningar hafi borist. Sérstaklega hafi það haft áhrif þegar tekið er fram í viðvörunum að gæta þurfi að því að vatn komist sína leið og fólk hreinsi frá ræsum og slíkt.“

Helstu breytingar í útgáfu viðvarana frá 1. nóvember eru þær að nýja kerfið tekur meira tillit til aðstæðna hverju sinni miðað við árstíma og samfélagslegra áhrifa. Markmiðið var að auka þjónustu við almenning og hagsmunaaðila. Ekki var lengur hugsað um staka veðurfarsþröskulda, en viðmið sem Veðurstofan notaði voru t.d. 20 metra vindhraði á sekúndu eða 100 millimetra úrkoma á 24 tímum. Elín Björk segir að nýja viðvörunarkerfið taki lengri tíma fyrir veðurfræðinga og kalli á meiri samþættingar en áður.

Viðvaranir í stað tilkynninga

Með aukinni vetrarferðamennsku síðustu ár hafi Veðurstofan farið að gefa út fréttatilkynningar þegar illviðra var von, en því var hætt með tilkomu nýja kerfisins. Appelsínugulu viðvaranirnar hafa sömu þýðingu, en eru meira lifandi og bjóða upp á uppfærslu á spákortinu eftir því sem við á.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 24. febrúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert