Senda geimfar til Júpíters

Geimfarið Juno bíður eftir að fara af stað til Júpíters.
Geimfarið Juno bíður eftir að fara af stað til Júpíters. Reuters

Í dag sendir bandaríska geimferðastofnunin, NASA,  ómannað geimfar af stað í átt til Júpíter. Geimfarið, sem kallast Juno, er knúið sólarorku og áætlað er að ferðin taki fimm ár, en litlir 2800 milljón kílómetrar eru frá jörðu til Júpíters. Talið er að verkefnið kosti 1,1 milljarð Bandaríkjadollara.

Júpíter  er stærsta og jafnframt elsta pláneta sólkerfisins og svokallaður gasrisi og hefur því ekkert fast yfirborð. Geimfarið á að kanna úr hverju plánetan er samansett, hversu mikið vatn sé þar að finna og hvort harðan kjarna sé að finna í miðju Júpíters.

Farinu verður skotið á loft frá Canaveral höfða í Flórída klukkan 15:34 að íslenskum tíma.

„Á Júpíter má finna leyndardóminn um hvaðan við komum og hvernig plánetur verða til.“ segir yfirmaður geimvísindamannanna, Scott Bolton. 

NASA hefur sent nokkur geimför til þessarar fjarlægu plánetu. Árið 1989 sendi stofnunin geimfarið Galileo, en það komst á leiðarenda árið 2003. Einnig hafa nokkur geimför farið framhjá Júpíter, þeirra á meðal Voyager 1 og 2, Ulysses og New Horizons, en ekkert þeirra hefur komist jafn nálægt plánetunni og Juno mun gera.

Juno er hluti af nýrri geimferðaáætlun Bandaríkjanna, en í september hyggst NASA senda geimfarið Grail til tunglsins og í nóvember verður sent rannsóknargeimfar til Mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert