Kokkur á Michelin-stað býður upp á vikumatseðilinn

Gabríel Kristinn Bjarnason landsliðskokkur sem vinnur á Michelin stjörnustaðnum Dill …
Gabríel Kristinn Bjarnason landsliðskokkur sem vinnur á Michelin stjörnustaðnum Dill býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gabríel Kristinn Bjarnason matreiðslumaður og landsliðskokkur á heiðurinn að vikumatseðlinum að þessu sinni sem er bæði girnilegur og fjölbreyttur í anda Gabríels. Gabríel hefur haft ástríðu fyrir matargerð frá barnsaldri og nýtur þess að matreiða og nostra við matargesti. 

„Ég hóf störf á nýjum og frábærum stað á árinu, á Dill restaurant, sem ber hina eftirsóttu Michelin-stjörnu í hjarta Reykjavíkur. Ég starfa þar í svokölluðu „Test kitchen“ við búa til og þróa nýja rétti fyrir staðinn með Gunna Kalla yfirkokk og eiganda staðarins. Ég er hæstánægður að fá að vinna á Dill og auka þekkingu mína og kunnáttu í matargerðinni,“ segir Gabríel.

Kom heim með gull

Undanfarna mánuði hafa verið miklar annir hjá Gabríel. „Ég tók til að mynda þátt í keppninni Kokkur ársins í ár og lenti í 4. sæti, sem var reyndar ekki sætið sem ég ætlaði mér að ná en það er ávallt gaman að komast í hóp 5 bestu matreiðslumanna landsins.“

Gabríel fór einnig til Osló á árinu sem þjálfari íslensku keppendanna sem tóku þátt keppninni bestu kokkanemar Norðurlandanna þar sem nemar ársins frá Íslandi, Marteinn og Hinrik, komu, sáu og sigruðu og hlutu 1.sætið með glæsibrag. „Það var virkilega gaman að koma með gullið heim sem þjálfari liðsins í fyrsta sinn,“ segir Gabríel aðspurður. Gabríel er einnig meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu. „Við erum byrjuð að æfa að fullum krafti fyrir Ólympíuleikanna í Stuttgart. Það er ótrúlega gaman að æfa fyrir keppnina og spennan er mikil innan hópsins.“

Nýstárlegur réttur að hætti Gabríels

Á sumrin nýtur Gabríel þess að grilla. „Alltaf þegar sumarið kemur þá rífur maður grillið út og byrjar að grilla en ég fæ ekki að grilla eins oft og ég myndi vilja en geri það við hvert tækifæri sem gefst. Mér finnst skemmtilegast að grilla fisk og grænmeti en hef undanfarið fengið áhuga á því að grilla íslenskt nautakjöt og velja þá skemmtilega bita eins og nautarif, kinnar og skirt steik. Þessa góðu bita sem fæstir eru að kaupa, og finnst mér þessir bitar oftast betri heldur en ribeye og nautalund sem flestir eru vanir að kaupa.“

Gabríel er búinn að setja saman girnilegan vikumatseðil fyrir Matarvef mbl.is þar sem fjölbreytnin er fyrirrúmi. Einnig deilir Gabríel sinni eigin uppskrift að nýstárlegum og skemmtilegu flatköku taco með lambafillet, gulrótarhrásalati og sítrónuma með pipar.

Girnilegur kjúklingarréttur, stökkur og bragðgóður.
Girnilegur kjúklingarréttur, stökkur og bragðgóður. Ljósmynd/Berglind Hreiðars


Mánudagur - Subbukjúklingur

„Mér finnst alltaf best að byrja vikuna almennilega og hafa eitthvað gott í matinn og hvað er betra en stökkur kjúklingur með góðri sósu.“

Syndsamlega ljúffengar bollur.
Syndsamlega ljúffengar bollur. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Þriðjudagur - Shawarma bollur í nan

„Indverskt er eitt af mínu uppáhalds og ætla eg að setja kjötbollur í nan, létt og lagott.“

Dýrðlegt kjúklingalasagna sem bragð er af.
Dýrðlegt kjúklingalasagna sem bragð er af. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Miðvikudagur - Mexíkóst lasagna

„Mér finnst oft ekkert betra en gott lasagna en gaman er að breyta aðeins uppskriftinni og er mexíkóskt lasagna geggjuð hugmynd.“

Ljúffengur og ferskur lax.
Ljúffengur og ferskur lax. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Fimmtudagur - Lax með geggjaðri sósu

„Fimmtudagur þá fer maður aðeins í hollustuna rétt fyrir helgina. Núllstilla sig aðeins með góðum lax.“

https://www.mbl.is/matur/frettir/2022/11/07/ljuffengur_lax_med_aedislegri_sosu

Nýstárlega lamba- taco sem gleður alla matgæðinga.
Nýstárlega lamba- taco sem gleður alla matgæðinga. Ljósmynd/Gabríel Kristinn

Föstudagur – Lamba-taco að hætti Gabríels

„Ég er mjög hrifinn af þessu flatköku taco með lambafille, og gulróta coleslaw og sítrónu ma með pipar og langar að deila með ykkur þessari dásamlegu uppskrift sem á vel við á föstudagskvöldi.“

Lamb fillet

  • 2-3 lamba fillet

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera ferninga í fituröndina á lambinu svo það grillist betur.
  2. Grillið vel á öllum hliðum þangað til að hitastig í miðju er 54°C.
  3. Setjið til hliðar og látið hvíla í allavega 10-15 mínútur.
  4. Skerið í þunnar sneiðar.

Flatköku-taco

  • 100 g hveiti
  • 100 g heilhveiti
  • 100 g rúgmjöl
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • 3 dl volg mjólk 

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman fyrir utan mjólkina sem er hituð og sett síðast í.
  2. Hrærið eða hnoðið saman og skiptið í 5 jafna hluta.
  3. Hver hluti er hnoðaður milli handanna og gott er að bera olíu á hendurnar til að deigið festist ekki.
  4. Fletjið út í kringlóttar kökur, pikkið þær með gafli og bakið strax á rafmagnshellu eða pönnu. 

Gulrótahrásalat

  • 2 stk. gulrót (skorið þunnt)
  • ¼ rauðkál (skorið þunnt)
  • 2 stk. stilkar sellerí (skorið þunnt)
  • 2 msk. saxað dill
  • 5 msk. majónes
  • 2 msk. sýrður rjómi
  • 2 msk. eplaedik
  • Salt og pipar til að smakka til 

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman og hrærið. 

Sítrónu majónes

  • 1 stk. sítróna
  • Nota zest og safa
  • 250 g majónes
  • Pipar og salt til að smakka til.

Aðferð:

  1. Setjið majónes í skál.
  2. Setjið sítrónusafa og zest af heilli sítrónu út í.
  3. Kryddið með pipar og salt og smakkið til.

Samsetning:

  1. Setjið saman að vilt og njótið.
Ómótstæðilega góður kjúklingur á einfaldan máta.
Ómótstæðilega góður kjúklingur á einfaldan máta. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Laugardagur – Heill kjúklingur og grænmeti

„Á laugardaginn er skemmtilegt að kaupa heilan kjúkling og baka í potti með góðu grænmeti og bjóða vinunum í mat.“

Pitsa með spennandi bragðsamsetningu og girnilegri áferð.
Pitsa með spennandi bragðsamsetningu og girnilegri áferð. Ljósmynd/Gigja Guðjónsdóttir

Sunnudagur – Pitsakvöld

„Eftir skemmtilega og erfiða viku er skemmtilegt að henda í eina góða pitsu og slaka á með fjölskyldunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert