Egyptaland með öllu internetlaust

Mótmælandi hefur fána Egyptalands á loft á Tahrir torgi í …
Mótmælandi hefur fána Egyptalands á loft á Tahrir torgi í miðborg Kaíró. ASMAA WAGUIH

Egyptar eru nú með öllu internetlausir eftir að lokað var fyrir Noor Group í dag, síðasta netþjónustufyrirtækið sem enn starfaði. Bandaríska netvaktin Renesys, sem fylgist með umferð í netheimum á rauntíma, segir að Noor netkerfið hafi „byrjað að hverfa af netinu" rétt fyrir klukkan 21 í kvöld.

„Tenging þeirra er nú með öllu rofin," hefur AFP eftir framkvæmdastjóra Renesys, Earl Zmijewski. Fjögur stærstu netþjónustufyrirtæki Egyptalands, Link Egypt, Vodafone/Raya, Telecom Egypt og Etisalat Misr, lokuðu á fimmtudaginn alfarið fyrir aðgang viðskiptavina sinnia að alþjóðlegum vefsíðum. Noor Group var því eina netþjónustan sem eftir stóð í landinu, þar sem mótmæli gegn forsetanum Hosni Múbarak hafa staðið yfir í 7 daga með blóðugum óeirðum.

Farsímakerfi hafa einnig orðið fyrir verulegum truflunum í landinu og þjónusta þeirra takmörkuð verulega. Róttæklingar hafa að mestu reitt sig á farsíma og internetið til að skipuleggja mótmælin sem eru þau umfangsmestu gegn stjórnvöldum í Egyptalandi í áratugi og innblásin af byltingu almennings í Túnis fyrr í mánuðinum.

mbl.is

Erlent — Fleiri fréttir

Í gær

Föstudaginn 17. maí

Fimmtudaginn 16. maí

Miðvikudaginn 15. maí