„Aðför að samfélaginu í heild sinni“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Ég er algjörlega ósammála þessari ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og veit hreinlega ekki hvað henni gengur til.“

Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hennar við þeirri ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda óbreyttum stýrivöxtum.

Vextirnir verða áfram 9,25% og hafa haldist óbreyttir frá því í ágúst í fyrra en næsta stýrivaxtarákvörðun verður tekin í ágúst.

Óhress með taktík Seðlabankans

„Ég er mjög óhress með þessa taktík sem Seðlabankinn er kominn með gagnvart heimilum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum og öllum skuldsettu í landinu. Það er greinilega markmiðið að fólk hætti að geta greitt af eignum sínum, vanskilinn fari vaxandi, kaupmátturinn rýrni og fólk fari undir fallöxi verðtryggingarinnar,“ segir Inga.

Inga segir vaxtastefnu Seðlabankans vera aðför að samfélaginu í heild sinni. Hún segir að á sama tíma og húsnæði skorti þá megi ekki byggja því þá skapi það þenslu og verðbólga hækki.

„Seðlabankinn hefur enga stjórn á þessu og menn þar á bæ vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Þetta er ólíðandi ástand en þetta virðist vera einbeittur vilji að halda þessu vaxtastigi þrátt fyrir gerð hófstilltra kjarasamninga til fjögurra ára og að verðbólgan sé á niðurleið.“

Fólk að sligast undan vaxtaokri

Inga segist sammála Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins, sem sagði við mbl.is að verið sé að slátra íslenskum heimilum.

„Fólk er að sligast undir þessu vaxtaokri og ég held að hvergi í heiminum nema kannski í einhverjum vanþróuðum og stríðshrjáðum ríkjum sem við sjáum svona háa vexti. Við erum að greiða þrisvar sinnum hærri vexti en önnur Evrópulönd í kringum okkur. Svo syngja þessir háu herrar sama gamla sönginn um að hér sé jöfnuður, kaupmáttur mestur og hér sé best í heimi. Ef þetta er ekki falsáróður þá er hann ekki til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert