Boða til mótmæla á Keflavíkurflugvelli

Boðað hefur verið til mótmæla á Keflavíkurflugvelli í kvöld.
Boðað hefur verið til mótmæla á Keflavíkurflugvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtökin No Borders hafa boðað til mótmæla á Keflavíkurflugvelli í kvöld gegn brottvísun Blessing, Mary og Esther sem senda á til Nígeríu.

Í yfirlýsingu frá samtökunum segir:

„Klukkan 21.30 í kvöld munum við mæta upp á Keflavíkurflugvöll og sýna samstöðu með Blessing, Esther og Mary. Þær hafa dvalið á Íslandi í meira en 6 ár, eru þolendur mansals og var skipulagt nauðgað árum saman.

Sumarið 2023 voru þær sviptar rétti til húsnæðis, heilbrigðisþjónustu og í raun allra grundvallarmannréttinda. Talskona Stígamóta segir þetta vera gróft brot á alþjóðaskuldbindingum Íslands og læknir hefur gefið útvottorð þess efnis að brottvísun myndi ógna lífi Blessing gríðarlega vegna alvarlegs heilsufars hennar og hefur lögmaður hennar beðið um frestun á brottvísun hennar, Útlendingastofnun hefur hafnað þeirri beiðni og er staðráðin í því að gera með beinum hætti atlögu að lífi hennar.

Með leiguflugi til Frankfurt og þaðan til Nígeríu

Síðustu sólarhringa hafa þær verið í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði, þrátt fyrir að hafa ekki framið neina glæpi. Í kvöld verða fluttar nauðugar úr landi með leiguflugi til Frankfurt ásamt fleira fólki sem hefur fengið höfnun á alþjóðlegri vernd. Þegar þangað er komið verða þær þvingaðar í stærri flugvél á vegum Frontex og vísað til Nígeríu.

Mætum öll á Keflavíkurflugvöll klukkan 21.30, sýnum samstöðu og höfnum aðför íslenskra stjórnvalda að lífi og öryggi Blessing, Esther og Mary. Þau sem eru ekki með bíl til umráða geta haft samband við No Borders og fengið far með meðlimum samtakanna. Ekki fleiri brottvísanir og ekki meira ríkisofbeldi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert