Sendum síðan dómaranum SMS

Guðmundur Kristjánsson í baráttu við Guðmund Magnússon í Garðabæ í …
Guðmundur Kristjánsson í baráttu við Guðmund Magnússon í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Kristjánsson fyrirliði Stjörnunnar var svekktur eftir jafntefli gegn Fram í Bestu deildinni í fótbolta á heimavelli í kvöld, 1:1.

„Þetta er leikur þar sem við hefðum viljað taka þrjú stig. Mér fannst við vera með tögl og haldir og það var óþarfi að hleypa Fram inn í þetta. Þetta getur komið fyrir þegar það er mikið af löngum boltum og klafs,“ sagði Guðmundur við mbl.is eftir leik.

Stjarnan var yfir í hálfleik og með góð tök á leiknum, en Fram tókst að jafna 25 mínútum fyrir leikslok.

„Frammistaðan var að mörgu leyti mjög góð. Mér leið alltaf eins og við værum að fara að sigla þessu heim. Það vantaði að setja annað mark. Það var erfitt að sækja það eftir að þeir skora. Við vorum nálægt því en náðum ekki að pota honum yfir línuna.“

Stjörnumenn vildu víti í lokin þegar Emil Atlason og Örvar Eggertsson fóru niður í teignum. Guðmundur var hinum megin á vellinum.

„Ég var líklega í verstu stöðunni til að sjá það. Við skoðum það og sendum síðan dómaranum SMS og sjáum hvort hann hafi verið sniðugur eða ekki.“

Stjarnan er í fjórða sæti með tíu stig sem stendur. „Ég hefði viljað vera með fleiri stig. Þetta er miðlungs, allt í lagi en ekki frábært,“ sagði Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert