„Þeir áttu ekki séns“

Jóhann Berg Guðmundsson lék frábærlega í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson lék frábærlega í kvöld. mbl.is/Golli

Jóhann Berg Guðmundsson átti frábæran leik í kvöld þegar Ísland sigraði Tyrkland, 2:0, á Laugardalsvelli í undankeppni HM í knattspyrnu. Jóhann var skiljanlega kátur að leik loknum.

„Nei það held ég ekki. Það hlýtur að hafa verið þrennan sem ég skoraði í Sviss,“ sagði Jóhann hlæjandi þegar hann var spurður að því hvort þetta hefði verið besti landsleikur hans frá upphafi.

„Þetta var flottur leikur hjá mér og flottur leikur hjá liðinu. Það spiluðu allir frábærlega í dag og við sýndum það að við erum ansi magnað lið hérna á heimavelli. Þeir áttu ekki séns. Við vorum með þetta allt undir fullkominni stjórn allan tímann,“ bætti Jóhann við.

Jóhann lagði upp fyrra mark leiksins þegar Theodór Elmar Bjarnason þrumaði boltanum í tyrkneskan varnarmann og þaðan fór boltinn í netið. „Það var sætt að sjá hann fara í netið og svo var gott að ná öðru markinu frekar snemma. Við hefðum átt að skora fleiri í fyrri, það er alveg klárt.“

Jóhann benti á að gestirnir hefðu farið að undirbúa afsakanir fyrir tapi áður en leikurinn hófst. „Þeir eru með fína leikmenn en var ekki þjálfarinn að tala um að þeir væru ekki vanir þessum hita og eitthvað kjaftæði? Þetta er bara fótbolti, 11 á móti 11 og einn bolti og það þýðir ekkert að væla um eitthvað svona. Þeir voru strax byrjaðir með afsakanir og við nýttum okkur það og sýndum að við erum betra lið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert