Hreinar skuldir ríkisins 465 milljarðar

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson. Mbl.is/ Kristinn

Tryggvi Þór Herbertsson, prófessor í hagfræði, segir að tölur sem birst hafa að undanförnu um skuldir íslenska ríkisins í kjölfar bankahrunsins, séu allt of háar. Samkvæmt hans útreikningum verða hreinar skuldir ríkisins 465 milljarðar króna miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir.

Tryggvi Þór sagði í Kastljósi Sjónvarpsins, að mikið af þeim skuldum, sem rætt væri um væru lánalínur, sem ekki væru taldar með þegar rætt væri um hreinar skuldir ríkisins. Þá væri þessum lánum ætlað að styrkja gjaldeyrisforðann sem þýddi að eign myndaðist á móti skuldunum.

„Mér hefur sýnst að menn séu að klæmast á þessari tölu yfir 2000 milljarðar til að geta sagt sem svakalegasta sögu. Ég hef kosið að kalla þetta kreppuklám; því svakalegri sögu sem menn segja þeim mun meiri athygli fá þeir," sagði Tryggvi Þór.

Hann sagði að ekki væri rétt að tala um að verið væri að hneppa Íslendinga á skuldaklafa og skuldirnar væru mjög viðráðanlegar. Staðan væri síst verri en hjá öðrum þjóðum. 

Tryggvi Þór sagði að samkvæmt hans útreikningum væru innlendar skuldir hins opinbera rúmir 225 milljarðar króna.  Erlendar skuldir hins opinbera yrðu 1,9 milljarðar dala eða jafnvirði rúmlega 217 milljarða miðað við að gengi Bandaríkjadals sé 127 krónur. Samtals eru þessar skuldir um 33% af vergri landsframleiðslu.

Tryggvi Þór sagði í Kastljósinu, að hann hefði á sínum tíma verið ósammála þeirri aðferðafræði, sem beitt var þegar Seðlabankinn tók Glitni yfir. Sagðist hann hafa séð fram á að ef ríkið tæki 75% hlut í bankanum gegn 600 milljarða króna hlutafjárframlagi myndi hlutabréfaverð lækka mikið, sem þýddi að Stoðir, aðaleigandi Glitnis, myndi falla og keðjuverkun fara af stað. Ágreiningur um þetta hefði verið ein af þeim ástæðum sem leiddi til þess að hann hætti sem sérstakur efnahagsráðgjafi forsætisráðherra í haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK