Fréttaskýring: Kreppunni ekki lokið

Enn samdráttur á Íslandi
Enn samdráttur á Íslandi mbl.is

Ef marka má tölur Hagstofunnar um landsframleiðsluna á öðrum ársfjórðungi er kreppunni ekki lokið á Íslandi líkt og haldið hefur verið fram, meðal annars af sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nam samdrátturinn 3,1% á öðrum ársfjórðungi, samanborið við þann fyrsta.

Mikið flökt virðist vera í árstíðaleiðréttum gögnum Hagstofunnar og ekkert virðist vera að marka þann hagvöxt sem menn hafa verið að gorta sig af ársfjórðungana á undan, að sögn hagfræðinga sem mbl.is ræddi við í morgun. Hagvöxtur sem átti að hafa verið hér er horfinn samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands frá því í morgun.

Úr hagvexti í samdrátt

Í fyrri útreikningum var gert ráð fyrir að hagvöxturinn hafi verið 0,7% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en tölurnar í dag benda til að samdrátturinn hafi verið 0,3% á þeim ársfjórðungi. 

Á fyrsta ársfjórðungi var gert ráð fyrir að hagvöxturinn hafi verið 0,6% en samkvæmt þjóðhagsreikningum í dag var samdrátturinn 1,2%. 

Í takt við spá Seðlabankans frá því í maí

Í Peningamálum Seðlabanka Íslands í maí er gert ráð fyrir  að landsframleiðslan muni í ár dragast saman á milli ára og áætlað er að samdrátturinn nemi um 2½% í ár. Í Peningamálum Seðlabankans frá því í ágúst gerir uppfærð spá fyrir því að samdrátturinn verði 1,9% í ár.

Þessi breyting í spá Seðlabankans byggir á þeim upplýsingum sem Hagstofan hefur birt undanfarna mánuði og benda þeir hagfræðingar sem mbl.is ræddi við á, að svo virðist sem lítið sé að marka þær tölur sem Hagstofan birti fyrr á árinu. Því sé útlit fyrir að spá Seðlabankans frá því í maí fyrir árið í heild sé nær lagi heldur en ágústspáin sem byggði á bráðabirgðatölum frá Hagstofunni.

Í raun var ýjað að því í Peningamálum Seðlabankans að sérfræðingar bankans ættu bágt með trúa þeim upplýsingum sem höfðu birst í tölum Hagstofunnar um landsframleiðslu hér á landi og meintan hagvöxt.

Landsframleiðsla er talin hafa dregist saman um 3,1% að raungildi frá 1. ársfjórðungi 2010 til 2. ársfjórðungs 2010. Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 7,4%. Einkaneysla dróst saman um 3,2% og fjárfesting dróst saman um 4,7%. Samneysla jókst um 1,0%. Á sama tímabili jókst útflutningur um 2,8% en innflutningur dróst saman um 5,1%.

Þessar tölur eru árstíðaleiðréttar og miðast við vöxt milli ársfjórðunga, ekki ára. Samanburður við 2. ársfjórðung 2009, á landsframleiðslu án árstíðaleiðréttingar, sýnir samdrátt um 8,4% á milli tímabila.

Landsframleiðsla fyrstu sex mánuði ársins 2010 er talin hafa dregist saman um 7,3% að raungildi samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2009, segir í nýjum þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands.

Þetta er í takt við spár Seðlabankans um þróun efnahagsmála, að landsframleiðslan hafi dregist saman á fyrstu sex mánuðum ársins en hún byrji að vaxa á þriðja ársfjórðungi á ný og hér mælist hagvöxtur á næsta ári, ekki í ár líkt og haldið hafi verið fram, meðal annars af stjórnmálamönnum, þar á meðal forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur, á Alþingi í gær og hún ítrekaði á Alþingi í morgun.

„Hagvöxtur hefur mælst undanfarna 6 mánuði, meira en hálfu ári fyrr en reiknað hafði verið með. Atvinnuleysi er komið í 7,5% og er mun lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Störfum er aftur farið að fjölga. Verðbólga hefur lækkað úr 18,6% í 4,5% á einu og hálfu ári og ekki verið minni í 3 ár. Stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 7% á rúmu ári og ekki verið lægri í 6 ár. Gengið styrkist jafnt og þétt og hefur ekki verið styrkara í eitt og hálft ár. Forsvarsmenn SA, ASÍ, Seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri hafa lýst því yfir að kreppunni sé lokið og bjartsýni í samfélaginu eykst,“ sagði Jóhanna í gær.

Fyrirtækin virðast halda að sér höndum

Í þjóðhagstíðindum Hagstofunnar fyrir annan ársfjórðung sem birtust í dag kemur fram að fjárfesting (árstíðaleiðrétt) dróst saman á 2. ársfjórðungi samanborið við ársfjórðunginn á undan og nemur lækkunin 4,7%.

Fjárfesting atvinnuvega dróst saman um 3,2% sem og fjárfesting hins opinbera um 11,3% en íbúðafjárfesting stóð í stað. Óárstíðaleiðréttar tölur sýna 26,3% samdrátt fjárfestingar á 2. ársfjórðungi miðað við sama fjórðung árið 2009.

Þeir hagfræðingar sem mbl.is ræddi við í morgun veltu þessum tölum fyrir sér þar sem svo virðist sem fyrirtækin haldi enn að sér höndum ólíkt því sem talið hefur verið. 

Á síðasta ársfjórðungi síðasta árs og fyrsta ársfjórðungi í ár virtist sem fjárfesting atvinnuvega hafi aukist en svo virðist sem hún sé farin að dragast saman á ný. Sem aftur á móti passar ekki við mánaðarlegar tölur Hagstofunnar um innflutning á fjárfestingavörum sem er byrjuð að vaxa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK