Misheppnaður brandari

John McCain.
John McCain. Reuters

Tilraun Joe, bróður bandaríska forsetaframbjóðandans Johns McCains, til að segja brandara á kosningafundi í Virginíu, mæltist ekki sérlega vel fyrir.

„Ég hef búið hér í að minnsta kosti áratug og þar áður var ég oft í annaðhvort Arlington eða Alexandríu, uppi í kommúnistalandi," sagði Joe McCain á fundi í Loudonsýslu í Virginíu í gær.

Hann baðst síðan afsökunar en talsvert var hlegið að ummælunum á fundinum að sögn fréttavefjar Washington Post.

Repúblikanar hafa jafnan getað treyst á fylgi í Virginíu í forsetakosningum en nýlegar skoðanakannanir benda hins vegar til þess, að Barack Obama njóti þar meira fylgis en John McCain  um þessar mundir.

Nokkur úthverfi Washingtonborgar í Norður-Virginíu hafa vaxið hratt og þar njóta demókratar mun meira fylgis en annarstaðar í ríkinu. Einn þessara staða er Arlington í Virginíu þar sem  John McCain á hús.

„Þetta var misheppnuð tilraun Joe McCains til að segja brandara," sagði  Gail Gitcho, talsmaður framboðs McCains. „John McCain og Sarah Palin einbeita sér að því að vinna stuðning kjósenda í Norður-Virginíu og skilja mikivægi þess svæðis ef sigur á að vinnast í ríkinu öllu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert