Stakk fjölskylduna til bana

AFP

Réttarhöld hófust í Bretlandi í dag yfir kínverskum viðskiptamanni sem er ákærður fyrir að myrða fjögurra manna fjölskyldu með hnífi. Morðin voru framin í kjölfar viðskipta sem gengu ekki upp.

Anxiang Du, 55 ára, neitar að hafa myrt háskólakennarann Jifeng Ding, eiginkonu hans Ge  Chui og tvær dætur þeirra, hina 18 ára gömlu  Xing og Alice, 12 ára.

Saksóknarinn segir að Du sem er sérfræðingur í kínverskum lækningum, hafi tekið eldhúshníf og ráðist á Ding og eiginkonu hans á heimili þeirra í Northamptonshire á Englandi í apríl árið 2011.

„Honum fannst ekki nóg að drepa þau, móðurina og föðurinn, í eldhúsinu á heimili þeirra, því hann fór upp á efri hæðina til að leita að dætrum þeirra,“ sagði saksóknarinn við réttarhöldin í morgun. „Hann stakk þær svo einnig til bana með köldu blóði.“

Ættingjar hjónanna voru komnir frá Kína til að vera viðstaddir réttarhöldin. Þar kom fram að Du hafi verið í viðskiptum með hjónunum árið 1999 en að samstarfið hafi gengið illa og lögfræðingar verið fengnir til að leysa málin

Du skuldaði orðið háar fjárhæðir í lögfræðikostnað. „Hann gerði sér grein fyrir hversu miklu hann hefði tapað, hann var eyðilagður,“ sagði saksóknarinn.

Því hafi hann ákveðið að svara fyrir sig með ofbeldi „til að losa sig við fólkið sem olli honum svona miklum vanda.“

Saksóknarinn sagði að eftir að hafa myrt fjölskylduna hafi hann stolið bíl þeirra. 

Du flúði síðan til Marokkó en var framseldur til Bretlands fyrr á þessu ári.

Ding var kennari við háskóla í Manchester og eiginkona hans var í viðskiptum og starfaði einnig sem túlkur. Þau fluttu til Bretlands fyrir um tveimur áratugum og dætur þeirra voru báðar fæddar í Bretlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert