Telur sig hafa séð þotuna í ljósum logum

AFP

Yfirvöld í Ástralíu rannsaka nú hvort eitthvað sé hæft í því sem bresk kona heldur fram, að þota Malaysia Airlines, flug MH370, hafi verið í ljósum logum þegar hún flaug yfir Indlandshaf. Konan var á siglingu á skútu daginn sem vélin hvarf.

Á sama tíma er nú rannsakað hvort hljóðnemar sem eru neðansjávar á Indlandshafi hafi numið hljóðmerki þegar þotan brotlenti. En það hefur ekki fengist staðfest þar sem hljóðmerkið getur alveg eins hafa komið frá jarðskjálfta. 

Þotan hvarf á leið sinni frá Kuala Lumpur til höfuðborgar Kína, Peking þann 8. mars sl. með 239 manns um borð. Hvorki tangur né tetur hefur fundist úr vélinni en talið er að hún hafi hrapað í Indlandshaf.

Fjallað er um þetta á vefnum Allt um flug. Þar kemur fram að Katherine Tee, sem er 41 árs, hefur verið á siglingu frá Cochina á Indlandi til Phuket í Taílandi á skútu ásamt eiginmanni sínum en þau lögðu af stað frá Indlandi þann 10. febrúar og komu þann 10. mars í höfn í Phuket. 

Katherine var ein upp á dekki að horfa á stjörnurnar á meðan eiginmaður hennar var sofandi inn í bát þegar hún sá það sem hún telur hafa verið flugvél í ljósum logum. 

„Ég var ein úti og maðurinn minn var sofandi inn í bát þegar ég sá eitthvað sem leit út eins og flugvél sem var alelda - eða það er það sem mér sýndist ég sjá - Þetta vakti athygli mína því ég hef aldrei séð svona áður. Þetta var eins og appelsínugult og skært eins og eldur og það var reykur sem fylgdi með,“ segir Katherine sem sagði að hún hefði einnig séð tvær aðrar flugvélar á næturhimninum en þessi hafi flogið töluvert lægra, að því er fram kemur á vefnum Allt um flug. 

„Það voru tvær aðrar vélar á sama tíma að fljúga í öfuga átt. Þær vélar höfðu venjuleg ljós og ég hugsaði að ef þetta væri í alvöru eldur þá myndu hinar vélarnar sennilega tilkynna það.“ 

„Hún kom aftan að okkur úr norðri en þegar ég leit aftur þá hafði vélin breytt um stefnu og haldið til suðurs frá okkur.“ 

Katherine sagði að hún hefði ekki sagt eiginmanni sínum frá þessu þar sem siglingin hefði tekið sinn toll af hjónabandi þeirra og þau varla talast við í viku en er þau komu í land í Phuket þann 10. mars þá fyrst frétti hún af malasísku farþegaþotunni.

„Ég hélt að þetta myndi ekki breyta neinu að segja frá því sem ég sá því það voru þegar margir sem sögðust hafa séð flugvélina eða komið auga á hana á gervitunglamyndum og svo gerði ég ráð fyrir að þeir myndu ná að rekja vélina með GPS eða einhverju slíku.“ 

„Mér datt ekki í hug einu sinni að senda út neyðarkall því þá liti ég út eins og auli ef það sem ég sá hefði verið ekkert merkilegt.“ segir á vefnum Allt um flug. 

Það var ekki fyrr en sl. laugardag að Katherine frétti af skipi sem var við leit af MH370 á Andaman-hafi að hún fór að skoða upplýsingar úr GPS-inum í bátnum en hún og eiginmaður hennar báru saman leiðin sem þau höfðu siglt við þá flugleið sem malasíska farþegaþotan átti að hafa tekið til vesturs út á Malacca-sundið. 

Hægt er að lesa ítarlega frásögn og kort sem sýna siglingaleið hjónanna á vefnum Allt um flug.

Frétt Guardian

Frétt New York Post

Frétt CNN

Frétt Telegraph

Frétt Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert