Mæla líklega með þriðja skammtinum fyrir alla

Sprauta fyllt með bóluefni Pfizer/BioNTech.
Sprauta fyllt með bóluefni Pfizer/BioNTech. AFP

Viðbúið er að sérfræðingar á sviði sóttvarna muni mæla með því við bandarísk stjórnvöld að Bandaríkjamenn fái þriðja skammtinn af bóluefni gegn Covid-19, átta mánuðum eftir að þeir hafa fengið annan skammtinn. Baráttan við deltaafbrigði kórónuveirunnar hefur reynst Bandaríkjamönnum erfið. 

Vísindamenn ríkisins fylgjast nú náið með uppgangi deltaafbrigðisins sem breiðir úr sér um landið og íhuga alvarlega hvort aukaskammtar af bóluefni verði nauðsynlegir áður en veturinn skellur á. 

Verndin gegn alvarlegum veikindum minnki

Í ákvarðanatöku sinni horfa þeir til landa eins og Ísraels þar sem frumniðurstöður rannsókna benda til þess að verndin sem bóluefni veita gegn alvarlegum veikindum Covid-19 hafi minnkað hjá þeim sem voru bólusettir í janúarmánuði. 

Búist er við því að tilkynning um þriðja skammtinn verði sett fram á næstu dögum, samkvæmt heimildum AP.

Vangaveltur efnaðra ríkja um að gefa þegnum sínum þriðja skammtinn af bóluefnum hafa vakið gagnrýni fyrir þær sakir að milljónir íbúa fátækari ríkja hafa ekki fengið einn einasta skammt af bóluefni.

Ekki komin á þetta stig hér á landi

Víða, t.a.m. hér á landi, er bólusetning með þriðja skammtinum hafin hjá viðkvæmum hópum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í gær að engin ákvörðun um þriðja skammtinn fyrir almenning hefði verið tekin hér á landi.

„Svo þurf­um við að taka af­stöðu til þess hvort við þurf­um að gefa öll­um aukaskammt en við erum ekki kom­in á það stig,“ sagði Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert