Mjólk uppseld víðast hvar á höfuðborgarsvæðinu

Mjólk seldist upp fljótlega eftir hádegi, eða fyrr, í mörgum verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Í Nettó á Akureyri var gripið til skömmtunar, en þar kláraðist öll mjólk fyrir klukkan þrjú í dag. Mikið var um að fólk væri að hamstra mjólk og sáust allt upp í 20-30 lítrar í innkaupavögnunum.

Í verslunum 10-11 á höfuðborgarsvæðinu kláraðist öll mjólk fljótlega upp úr hádegi. Guðmundur Hafsteinsson, svæðisstjóri 10-11 verslananna, segir að í stærstu verslun keðjunnar, sem er í Glæsibæ, hafi allt selst upp strax í morgun. Nóg er til af öðrum mjólkurafurðum, enda á Mjólkursamsalan enn til birgðir af þeim. Matthías Sigurðsson, framkvæmdastjóri Nóatúns, sagði í samtali við mbl.is um klukkan 15 í dag að mjólk væri búin, eða nánast búin, í öllum verslunum keðjunnar að tveimur undanskildum, og að því líklega yrði hún öll horfin í kvöld. Hann sagðist hafa heyrt að allar mjólkurafurðir hefðu verið hamstraðar. Björk Óskarsdóttir, deildarstjóri hjá Nýkaupum í Kringlunni, segir að öll mjólk hafi verið búin í versluninni skömmu eftir hádegi. Í verslun KEA-Nettó á Akureyri seldist mjólkin upp á tæpum þremur tímum. „Við opnuðum klukkan tólf og ákváðum að skammta nýmjólk og léttmjólk, fjóra lítra á hvern viðskiptavin. Hún var þó búin fyrir klukkan þrjú," segir Sigmundur Sigurðsson verslunarstjóri. Hann segist hafa séð allt upp í 20-30 lítra af mjólk í innkaupavögnunum hjá einstökum viðskiptavinum, en þeir fengu þó ekki að hafa með sér heim nema fjóra lítra. Hann segist jafnframt hafa heyrt það frá verslun Nettó í Mjóddinni í Reykjavík að þar væri öll mjólk uppseld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert