Flutningafyrirtæki minna á sig á þjóðvegum landsins

Þeir sem ferðast um þjóðvegi landsins á næstunni munu varla komast hjá því að verða varir við átak flutningafyritækja í sumar því um eitt hundrað flutningavagnar í eigu nokkurra stærstu vörudreifingaraðila landsins munu skarta áberandi skilaboðum, sem eiga að minna vegfarendur á gildi flutninga fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu. Þetta kemur fram í fréttapósti Samtaka verslunar og þjónustu.

Aðildarfyrirtæki og samtök flutningasviðs SVÞ standa að baki átakinu: Eimskip, Samskip, Pósturinn, Olíudreifing, Skeljungur, Icelandair Cargo, Landvari og Landssamband vörubifreiðaeigenda. Kristján L. Möller samgönguráðherra ýtti átakinu úr vör með formlegum hætti með stuttri athöfn við Perluna í Öskuhlíðinni í dag.

Með kynningarátakinu vilja flutningafyrirtæki innan SVÞ minna á þá staðreynd að vöruflutningabílarnir eru á ferðinni fyrir fólkið og atvinnulífið í landinu og að öflugir landflutningar eru forsenda þess að atvinnulíf og byggð geti þrifist um allt land.

Signý Sigurðardóttir forstöðumaður flutningasviðs SVÞ segir við hæfi í upphafi sumars þegar umferð ferðafólks um þjóðvegi landsins fer að aukast að koma þessum skilaboðum á framfæri við vegfarendur. Með því sé meðal annars verið að bregðast við neikvæðri umræðu um vöruflutninga sem of mikið hafi borið á undanfarin misseri.

„Ég held að það gæti ákveðins misskilnings hjá þeim sem agnúast út í flutningabílana sem þeir mæta á þjóðvegunum. Við vitum öll að varan sem við kaupum í verslunum um land allt verður ekki til þar. Við vitum líka að fiskurinn sem fluttur er með flugi og seldur háu verði á markaði erlendis flytur sig ekki sjálfur frá framleiðanda á flugvöll. Flutningabílarnir sem við mætum eru einfaldlega nauðsynlegur hluti í gangverki samfélagsins“ segir Signý Sigurðardóttir sviðsstjóri hjá SVÞ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert