Norskir þingmenn styðja lán til Íslands

Stórþingið í Ósló.
Stórþingið í Ósló. norden.org/Mikael Risedal

Svo virðist sem breið samstaða sé í norska Stórþinginu við lánveitingu norska seðlabankans til Íslands. Seðlabankinn hefur sett það sem skilyrði fyrir að lána Íslandi 4,25 milljarða norskra króna til 4-5 ára að því fylgi ríkisábyrgð og talsmenn norsku stjórnarandstöðuflokkanna segjast reiðubúnir til að styðja slíka tillögu.

„Við styðjum þetta að sjálfsögðu. Blóð er þykkara en vatn. Það er breiður stuðningur meðal norsku þjóðarinnar að aðstoða Íslendinga í erfiðri stöðu. Þetta er mikið tilfinningamál," sagði Hans Olav Syversen, talsmaður Kristilega þjóðarflokksins við NTB fréttastofuna.

„Við munum  styðja kröfuna um ríkisábyrgð," segir Syversen.  Það sama segir Jan Tore Sanner, talsmaður Hægriflokksins. „Við stöndum fast að baki ríkisstjórnarinnar í þessu máli," segir hann. 

Sanner segist gera sér ljóst, að Norðmenn kunni að tapa því fé, sem Ísland fær að láni en eðlilegt sé að veita bræðraþjóðinni stuðning. Hann leggur þó áherslu á að Stórþingið hafi ekki fengið að fylgjast með bréfaskriftum seðlabanka Noregs og Íslands.

Framfaraflokkurinn og  Vinstriflokkurinn hafa einnig gefið til kynna, að Norðmenn eigi að aðstoða Ísland vegna fjármálakreppunnar. 

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir við norska fjölmiðla að hann sé snortinn yfir þeim stuðningi, sem norska þjóðin hafi veitt Íslendingum. Lánveitingin frá Noregi sé eitt af mikilvægum skrefum í þeirri vinnu, að ná hagstæðu samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem aftur leggi grundvöll að jákvæðri þróun mála á Íslandi.

Vefurinn e24 hefur eftir Geir að engin ástæða sé til að óttast að þeir fjármunir, sem Ísland fái lánaða hjá  Norðmönnum, tapist. Auðlindir Ísland, jarðhiti og fiskistofnarnir, séu gjöfular og 400 þúsund ferðamenn heimsæki landið árlega. Íslendingum muni án efa takast að endurreisa efnahagslíf sitt eftir að gengið hefur verið frá samningnum við gjaldeyrissjóðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert