Dánarorsök ætti að liggja fyrir í dag

Frá starfsstöð Skydive City í Zephyrhills í Flórída.
Frá starfsstöð Skydive City í Zephyrhills í Flórída. mbl.is

„Við vitum ekki enn hvað er á myndbandinu en það er eitt af því sem við verðum að skoða og komast að,“ segir Melenie Snow, talsmaður lögreglustjóraembættisins í Pasco í Flórída, um upptöku úr myndavél sem Örvar Arnarson er sagður hafa haft í hjálmi sínum í fallhlífarstökki hans og Andra Más Þórðarsonar á laugardag.

Rannsóknarlögreglan í Pasco vill enn sem komið er ekki segja af eða á um hvort málið verði skilgreint sem slys. 

Upptakan úr myndavélinni í hjálminum er meðal þess sem lögreglan hefur til skoðunar og vonast til að geti varpað ljósi á banaslysið. Þegar mbl.is ræddi við Snow hafði upptakan ekki enn verið skoðuð.

Þá væntir rannsóknarlögreglan niðurstaðna réttarlæknisfræðilegrar líkskoðunar í dag eða í síðasta lagi á morgun, sem mun skera úr um dánarorsök.

„Ég veit að Flugmálastofnun Bandaríkjanna (FAA) mun einnig fara yfir búnaðinn sem notaður var hjá Skydive City til að ganga úr skugga um að hann hafi verið í lagi og í samræmi við öryggisreglur. Það er ferli sem þarf alltaf að fara í gegnum ef eitthvað kemur upp þar sem flugvélar koma við sögu,“ segir Snow.

Samkvæmt bandarískum lögum ber fallhlífastökkvurum að yfirfara sjálfir eigin búnað fyrir stökk. Snow gat þó ekki staðfest að þeir Örvar og Andri Már hefðu notað eigin fallhlífar í stökkinu.

Að sögn Snow voru ekki farin fleiri fallhlífarstökk á vegum Skydive City daginn sem banaslysið varð, en starfsemi fyrirtækisins hefur haldið áfram með eðlilegum hætti í dag.

Frétt mbl.is: Örvar var með myndavél í hjálminum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert