Örvar var með myndavél í hjálminum

Andri Már Þórðarson og Örvar Arnarson
Andri Már Þórðarson og Örvar Arnarson

Niðurstöðu krufningar er að vænta í dag eða á morgun vegna banaslyssins sem varð í Flórída um helgina þegar tveir íslenskir fallhlífastökkvarar, þeir Örvar Arnarson og Andri Már Þórðarson, létu lífið.

Örvar var með myndavél í hjálmi sínum sem kann að gefa vísbendingar um hvað fór úrskeiðis en upptakan verður ekki gerð opinber fyrr en eftir að rannsókn lýkur. Þetta er haft eftir Melenie Snow, upplýsingafulltrúa lögreglustjóraembættisins í Pasco héraði í Flórída, í dagblaðinu Tampa Bay Times.

Notuðu eigin búnað

Fyrir liggur að hvorug aðalfallhlífin opnaðist. Varafallhlífarnar virðast hafa skotist upp en ekki opnast nógu vel eða nógu snemma. Ef allt er með feldu eiga varahlífarnar að opnast í rúmlega 200 metra hæð.

Fram kemur á fréttavefnum Tampa Bay Online að Örvar, sem var þrautreyndur fallhlífastökkvari- og kennari, hafi notað sinn eigin búnað en Andri Már hafi notað búnað í eigu íslenska fallhlífaklúbbsins, Í frjálsu falli.

Samkvæmt lögum í Bandaríkjunum ber fallhlífastökkvurum að yfirfara sjálfir eigin búnað fyrir stökk. David T.K. Hayes, framkvæmdastjóri fallhlífastökkfyrirtækisins Skydive City, segir að starfsmenn hafi þó líka farið yfir búnað allra og að fallhlífar Íslendinganna hafi staðist öryggiskröfur.

Snow segir engu að síður að bandaríska flugmálastofnunin (Federal Aviation Administration) muni koma að rannsókninni og leggja mat á bæði búnaðinn og flugvélina sem stokkið var úr. „Það hefur ekki farið fram ennþá, en við munum vera í sambandi við FAA,“ segir Snow í samtali við Tampa Bay Times.

Þú munt þekkja einhvern sem hefur dáið

Örvar og Andri Már voru báðir í hópi Íslendinga sem hélt til Flórída fyrr í vikunni í þjálfunarbúðir hjá Skydive City. Um 75.000 fallhlífastökk fara árlega fram á vegum Skydive City, og yfir páskana flykkjast jafnan hundruð manna þangað til að stökkva.

Nýr hópur nema er væntanlegur til þjálfunar í vikunni og segir framkvæmdastjórinn Hayes að áætlun verði haldið að óbreyttu þó svo kunni að fara að einhverjir hætti við að stökkva vegna slyssins.

„Ef einn samnemenda þinn deyr í fyrstu þjálfunarvikunni, þá hefur það áhrif á þig,“ er haft eftir Hayes í Tampa Bay Times í gærkvöldi. „Þau munu svo sannarlega ekki stökkva í dag, en það er vegna veðursins. Munu þau stökkva á morgun? Það er þeirra persónulega ákvörðun. Ef þú hefur verið lengi í þessu sporti, þá muntu þekkja einhvern sem hefur dáið.“

15 dáið á 22 árum í Zephyrhills

Að minnsta kosti 15 fallhlífastökkvarar hafa látíð lífið í borginni Zephyrhills síðan árið 1991, að þeim Örvari og Andra Má meðtöldum. Á landsvísu í Bandaríkjunum dóu 19 manns í fallhlífastökki árið 2012 og 25 árið 2011, samkvæmt bandarískum landssamtökum fallhlífastökkvara.

Hayes segir að fallhlífastökkvarar um allan heim muni fylgjast með niðurstöðu málsins, í ljósi þess að nemandi lét lífið. „Nemendur eiga aldrei að deyja.“

Búist er við því að dánarorsök verði gefin út í dag eða á morgun.

Leiðrétt klukkan 14:30: Í dagblaðinu Tampa Bay Times sagði að nemandinn, þ.e. Andri Már, hafi verið með myndavél í hjálmi sínum. Það hefur nú fengist leiðrétt því samkvæmt samtali við upplýsingafulltrúa lögreglunnar í Pasco var það Örvar sem hafði myndavélina í sínum hjálmi.

Íslendingar létust í fallhlífastökki

Ekki ljóst hvað fór úrskeiðis

Vindur hafði ekki áhrif

Orsök banaslyssins óljós

Frá starfsstöð Skydive City í Zephyrhills í Flórída.
Frá starfsstöð Skydive City í Zephyrhills í Flórída. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert