Þarf að fleyta fólki og fyrirtækjum yfir skaflinn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aðgerðir Seðlabanka Íslands um vaxtalækkun og sköpun svigrúms til nýrra útlána sem nema að öðru óbreyttu allt að 350 milljörðum króna vera mjög mikilvægar og í takt við það sem ríkisstjórnin hefur talað um að þurfi að gera.

Þar á hún við að færa þyrfti sveiflujöfnunarauka niður þannig að fjármálafyrirtækjum verði gefið það svigrúm sem þau þurfa til að veita atvinnulífinu fyrirgreiðslu vegna kórónuveirunnar.

„Þetta er mjög skynsamleg aðgerð í svona aðstæðum þar sem við erum að sjá fram á tímabundnar þrengingar sem verða samt mjög skarpar. Það skiptir máli að við getum fleytt bæði fólki og fyrirtækjum yfir þennan skafl sem við erum stödd í og það er töluvert eftir af honum,“ segir Katrín og nefnir einnig mikilvægi vaxtalækkunarinnar um 0,5%. Það þýðir að meginvextir bankans verða 1,75%. „Stýrivextir eru orðnir mjög lágir og búið að lækka þá á einu ári frá lífskjarasamningum um tæp þrjú prósent sem er mikil vaxtalækkun og í sögulegu samhengi allt aðrar aðstæður en við höfum séð, til að mynda í síðustu kreppu.“

Spurð hvort aðgerðir Seðlabankans séu nægar segir hún að stjórnvöld séu að undirbúa frekari aðgerðir. Hún segir niðursveifluna skarpa og að aðstæður breytist dag frá degi þar sem lönd loka landamærum og setja á takmarkanir innan sinna landamæra. Það hafi áhrif, til dæmis á þá sem flytja út fisk, þegar veitingahúsum í Evrópu er lokað einu af öðru.

„Við munum sjá þessara áhrifa gæta, ekki bara á ferðaþjónustuna, þó að það sé áþreifanlegasti skellurinn, heldur mun þetta hafa áhrif á allt atvinnulíf. Ég tel að þessar aðgerðir skipti miklu máli. Þær gefa bönkum svigrúm til að auka útlán um 350 milljarða sem munar um inn í þetta ástand.“

Katrín bætir við að almenningur hafi áhyggjur af sínum lánum þegar þrengingar sem þessar blasa við og því skiptir vaxtalækkunin miklu máli líka.

Spurð nánar út í næstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar segir hún að þegar fyrstu aðgerðirnar voru boðaðar fyrir viku hafi hún verið meðvituð um að aðstæðurnar kölluðu á reglulegt samtal við þjóðina um aðgerðir. „Það er auðvitað orðin klisja að tala um fordæmalausar aðstæður en þær eru það svo sannarlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert