„Gríðarlega mikilvægt“

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

Ferðamálastjóri er mjög ánægður með aðgerðirnar sem Seðlabankinn kynnti í morgun um að skapað verði svigrúm til nýrra útlána sem nemur að óbreyttu allt að 350 milljörðum króna.

„Það er gríðarlega mikilvægt að taka á lausafjárstöðu í ferðaþjónustunni, það er stóra málið. Allar aðgerðir sem lúta að því að lausafé þorni ekki upp hjá ferðaþjónustufyrirtækjum er lykilatriði,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.

Ferðamenn á ferli í Reykjavík.
Ferðamenn á ferli í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Hann bætir við að fyrir næstu vikur og mánuði sé þetta nauðsynlegt því það sé sá tími ársins sem lausafé er minnst í ferðaþjónustunni. Allur sá peningur sem átti að koma inn skili sér ekki vegna áhrifa af völdum kórónuveirunnar. „Fyrirtækin hafa ekki laust fé til að greiða reikningana sína og standa við skuldbindingar og það verður að greiða úr því.“

Að sögn Skarphéðins voru allar vísbendingar um að gripið yrði til þessara aðgerða líkt og verið er að gera í öðrum löndum. „Í kreppum er alltaf lausafjárskorturinn sem er verstur og það er lausafjárskorturinn sem drepur fyrirtæki.“

mbl.is