Viljum ekki fá ný og skæð afbrigði inn í landið

Ingileif flutti opnunarerindi á Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands í …
Ingileif flutti opnunarerindi á Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands í gær. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Prófessor í ónæmisfræði hvetur stjórnvöld til þess að velta því alvarlega fyrir sér að ráðast í bólusetningu barna og ungmenna gegn Covid-19, bæði vegna þess að ný afbrigði kórónuveirunnar virðast stefna þeim í meiri hættu en hið upprunalega og til þess að ná fram betra hjarðónæmi. Hún telur mikilvægt að áfram verði fólk skimað og sent í sóttkví við komuna til landsins til þess að varna því að ný afbrigði veirunnar komist hingað til lands.

Prófessorinn, Ingileif Jónsdóttir, hélt erindi á Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands í gær um árangur og áskoranir í bólusetningum gegn Covid-19.

„Það er mikilvægt að bólusetja sem flesta og það er mikilvægt að gera það hratt. Almenn þátttaka í bólusetningunum er frábær en við þurfum líka að fylgjast með landamærunum svo við fáum ekki inn þessi afbrigði sem eru verri,“ segir Ingileif í samtali við mbl.is. Hún er prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Geta lagað bóluefnin að nýjum afbrigðum

Flest bóluefnin sem nú eru í notkun hér á landi vernda fólk vel gegn upphaflega afbrigði veirunnar og ágætlega gegn því breska. Rannsóknir benda aftur á móti til þess að vernd sé minni gegn öðrum afbrigðum, til dæmis því indverska, brasilíska og suðurafríska. Ingileif segir þó að bóluefnaframleiðendur geti lagað bóluefnin að nýjum afbrigðum ef þess þarf.

„Bóluefnin eru eitthvað mismunandi eftir því hversu vel þau ráða við þessi afbrigði veirunnar, sem öll eru líka meira smitandi. Það góða er að þau lyfjafyrirtæki sem eru komin með bóluefni í notkun eru öll að vinna að þróun bóluefna sem byggja á raðgreiningum á genum fyrir broddpróteinið úr þessum nýju afbrigðum og ættu þá að virka betur gegn þeim,“ segir Ingileif.

Hún telur afar mikilvægt að reynt sé sem mest að ná upp hjarðónæmi gegn Covid-19.

„Til þess að vera betur vernduð gegn þessum nýju afbrigðum sem eru meira smitandi og geta sloppið að einhverju leyti fram hjá ónæmissvarinu sem hefur myndast við bólusetningu eða sýkingu. Ég reikna með því að við munum kannski á næsta ári fá ný afbrigði af bóluefnum sem er þá hægt að gefa sem aukaskammt eftir því hvar maður býr og eftir því hvaða stofnar eru í hámarki,“ segir Ingileif. 

„Öll þessi bóluefni eiga það sameiginlegt að vernd gegn alvarlegum …
„Öll þessi bóluefni eiga það sameiginlegt að vernd gegn alvarlegum Covid-19-sjúkdómum gegn sjúkrahúsvist er hátt í 90% og gegn dauða er nálægt 100%,“ segir Ingileif um þau bóluefni sem eru í umferð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engar áhyggjuvaldandi aukaverkanir á meðal barna

Hingað til hefur engin ákvörðun um almenna bólusetningu unglinga og barna hér á landi verið tekin en í dag var tilkynnt að börnum á aldrinum 12-16 ára með undirliggjandi sjúkdóma verður boðin bólusetning gegn kórónuveirunni. Ingileif telur að verulegur ávinningur geti hlotist af bólusetningu barna, að því gefnu að rannsóknir sýni að bóluefni séu örugg og veiti börnum vernd.

Bóluefni Pfizer/BioNTech hefur verið samþykkt til notkunar fyrir 12-15 ára börn í Bandaríkjunum og hjá Lyfjastofnun Evrópu. Ónæmissvörunin hjá þessum hópi virtist í rannsóknum vera jafngóð eða  betri en hjá ungum fullorðnum. Verndin var 100% en úrtakið í rannsókninni var þó fremur lítið. Engar áhyggjuvaldandi aukaverkanir komu fram í rannsókninni, að sögn Ingileifar.

Hún segir tvær ástæður fyrir því að bólusetning unglinga og barna gæti verið vænlegur kostur.

„Í fyrsta lagi eru sumir af þessum nýju stofnum eða afbrigðum, eins og breska afbrigðið, suðurafríska afbrigðið, brasilíska afbrigðið og þetta indverska, meira smitandi en upprunalegi stofninn og smita börn frekar en upphaflegi stofninn. Það er meira um að yngra fólk veikist alvarlega og því er meiri hætta á ferðum fyrir börn en var þegar upprunalegi stofninn var að grassera,“ segir Ingileif og heldur áfram:

„Hitt er að þeim mun fleiri sem eru varðir, þeim mun auðveldara er að ná hjarðónæmi. Ef við erum með börn og unglinga sem hitta marga og hreyfast mikið, þá geta þau dreift veirunni. Þó að þau smiti minna og veikist síður getur staðan breyst ef við förum að fá þessi nýju afbrigði. Þeim mun færri sem geta smitast, þeim mun fljótari verðum við að ná hjarðónæmi.“

Verndin gegn dauða nálægt 100%

Hjarðónæmið er einmitt annað af tveimur markmiðum með bólusetningu. Hitt markmiðið er vernd gegn alvarlegum sýkingum.

„Öll þessi bóluefni eiga það sameiginlegt að vernd gegn alvarlegum Covid-19-sjúkdómum gegn sjúkrahúsvist er hátt í 90% og gegn dauða er nálægt 100%,“ segir Ingileif um þau bóluefni sem eru í umferð. Bóluefnin vernda fólk ekki að fullu fyrir smiti eða því að smita aðra en samt sem áður en mun ólíklegra að bólusettir smitist en óbólusettir. Þá er einnig ólíklegra að bólusettir dreifi veirunni jafnmikið áfram.

Af flestum bóluefnum þarf fólk tvo skammta til þess að teljast fullbólusett. Ingileif segir þó að í ljós hafi komið að einn skammtur af þeim bóluefnum veiti ágætisvernd gegn sjúkdómi eftir nokkrar vikur.

„Við sjáum að af öllum þessum bóluefnum þá gefur einn skammtur um 60% vernd eftir fjórar til fimm vikur og hátt í 80% vernd eftir fimm til sjö vikur. Verndin batnar með tímanum eftir fyrsta skammtinn,“ segir Ingileif. 

Væri ekki hissa þótt mælt væri með öðrum skammti af efni  Janssen

Ekki er komin reynsla á það hversu lengi verndin varir.

„Það er almennt ráðlagt að taka seinni skammt vegna þess að þá byggir maður upp ónæmisminni sem ætti að stuðla að vernd til lengri tíma. Það er ekkert ólíklegt að það verði hið sama uppi á teningnum með Janssen-bóluefnið [sem nú er einungis gefinn einn skammtur af] – við vitum það ekki enn þá, en nú stendur yfir stór rannsókn í Bandaríkjunum þar sem þeir eru að gefa seinni skammt af bóluefni Janssen. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir yrði ég ekkert hissa þótt það yrði ráðlagt að gefa annan skammt af Janssen,“ segir Ingileif.

Hún bendir á að það sé slæmt fyrir heimsbyggðina í heild hversu margar þjóðir skorti útbreidda bólusetningu gegn Covid-19.

„Það má segja að í byrjun hafi tíu ríkustu lönd í heimi fengið 75% af öllu bóluefni áður en fátækari lönd höfðu fengið einn einasta skammt. Þetta er óásættanlegt af sanngirnissjónarmiðum en líka vegna þess að þetta dregur úr möguleikum heimsins til þess að ráða niðurlögum faraldursins. Vegna þess að ef það eru stórir hlutar þjóða og stórir hlutar heimsins þar sem enginn er bólusettur þá halda áfram að koma ný afbrigði veirunnar sem sleppa undan bóluefninu og dreifast til þeirra landa sem er búið að bólusetja. Svo þetta er bæði mikilvægt réttlætismál og líka mikilvægt í baráttunni við faraldurinn. Til þess að jafna aðgengi að bóluefnum á heimsvísu þarf fjármagn, uppbygginu innviða og pólitískan vilja.“

Ingileif segir mikilvægt að áfram sé fólk látið sæta sóttkví og tvöfaldri sýnatöku við komuna til landsins.

„Ef við hugsum þetta út frá íslenskum hagsmunum þá kemur það í veg fyrir að þessi nýju skæðu afbrigði berist inn í landið. Landamæraskimun, sóttkví og önnur skimun held ég að sé grundvallaratriði.“

„Við viljum alls ekki fá þann stofn inn í landið

Breska afbrigði veirunnar, sem er meira smitandi en upphaflega afbrigði hennar, hefur dreifst hér á landi. Fjögur tilvik indverska afbrigðisins hafa greinst hjá ferðamönnum í lögbundinni skimun þeirra en afbrigðið hefur ekki náð að dreifast innanlands. Ingileif segir virkilega mikilvægt að koma í veg fyrir það.

„Við viljum alls ekki fá þann stofn inn í landið. Hann er mjög ráðandi í Bretlandi og ástandið á Indlandi er algjörlega skelfilegt þótt það virðist sem betur fer vera eitthvað að lagast,“ segir Ingileif og bætir við:

„Með því að halda skæðari afbrigðunum í burtu erum við að vernda börnin sem eru óbólusett, við erum að vernda fólk sem er ekki hægt að bólusetja. Við erum enn ekki búin að gefa nema um 50% af þjóðinni einn eða fleiri skammta en til þess að ná hjarðónæmi þurfum við að líklega að ná yfir 60% af þjóðinni í heild. Og það er ekki nóg, við þurfum að bíða vegna þess að það er ekki komin upp veruleg vernd fyrr en eftir svona fjórar vikur, þá er hún enn 60% en ekki 80-95% eins og eftir seinni skammt.“

Æskilegt að skima bólusetta frá áhættusvæðum

Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra til­kynnti í vikunni að stefnt væri að því að hætta skimun bólu­settra ferðamanna sem koma hingað til lands. Spurð hvort það sé öruggt segir Ingileif:

„Það er erfitt að segja vegna þess að það er ekki til mikið af rannsóknum um verndina sem bólusetning gefur gegn því að smitast. Hins vegar er það þannig að ef þú ert bólusettur eru mestallar líkur á því að þú berir veiruna skemur, hún fjölgi sér minna og þú smitir minna heldur en óbólusettir. Þótt þú sért með 80-90% vernd gegn sjúkdómi ertu kannski með 50-60% vernd gegn því að smitast.“

Þá segir Ingileif að líklega beri bólusettir síður smit en aðrir og ef draga þurfi úr álaginu við skimun séu bólusettir líklega sá hópur sem minnst áhætta væri fólgin í að hætta að skima. Hún segist þó telja að æskilegt væri að þeir sem koma hingað til lands frá áhættusvæðum fari í skimun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert