Pfizer samþykkt í Evrópu fyrir 12-15 ára

Ungur herramaður fær bóluefni Pfizer í Þýskalandi. Brátt verður enn …
Ungur herramaður fær bóluefni Pfizer í Þýskalandi. Brátt verður enn yngra fólk þar í landi bólusett með sama bóluefni. AFP

Evrópska lyfjastofnunin hefur veitt bóluefni Pfizer gegn kórónuveirunni fyrir 12-15 ára gömul börn skilyrt markaðsleyfi. Það er fyrsta bóluefnið gegn veirunni sem samþykkt er í Evrópu fyrir börn yngri en 16 ára. Áður höfðu lyfjastofnanir í Kanada og Bandaríkjunum veitt bóluefninu skilyrt markaðsleyfi.

Börn á þessum aldri sýndu mikið mótefnasvar við bóluefninu í tilraunum lyfjaframleiðandans og engar alvarlegar aukaverkanir komu upp.

Þetta er sagt munu hraða enn frekar bólusetningu í Evrópu og hafa heilbrigðisyfirvöld í Þýskalandi meðal annars tilkynnt að börn, 12 ára og eldri, verði bólusett í byrjun júní.

Heilbrigðismálaráðherra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Stella Kyriakides, segir að leyfisveitingin færi Evrópu skrefinu nær því að binda endi á kórónuveirufaraldurinn.

„Fremur en að það verði ákvörðun einstakra stjórnvalda í Evrópuríkjum verður það ákvörðun foreldra að bólusetja börn sín,“ segir Kyriakides á twittersíðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert