Hefur áhyggjur af fjölda efnaskiptaaðgerða

Esther Helga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í át- og matarfíkn, segist hafa miklar áhyggjur af því hversu margar efnaskiptaaðgerðir eru framkvæmdar á Íslandi á ári hverju. Mikil aðsókn hefur verið í slíkar aðgerðir undanfarið en talið er að yfir 800 aðgerðir hafi verið framkvæmdar hér á landi síðastliðið ár sem er aukning frá árunum á undan.

„Já, ég hef haft áhyggjur af því,“ segir Esther. „Ég er ekki að gera lítið úr þessum aðgerðum,  fagkunnáttu og vinnslunni í kringum þær, það er alltaf að verða betra og betra. En það sem mér finnst vanta inn í umræðuna er það sem ég stend fyrir og það er þessi fíknipartur.“

Vísbendingar gefa til kynna að fólk sem hefur gengist undir efnaskiptaaðgerðir sé líklegra til að þróa með sér áfengisfíkn. Í kjölfar þess kallar Esther Helga eftir breytingum í ferlum þeirra sem hagnast á því að framkvæma aðgerðirnar.

Í ljósi þess að ein fíkn tekur við af annarri segir hún nauðsynlegt að skimað verði eftir fíknivanda þeirra sem hyggjast ganga undir efnaskiptaaðgerðir á borð við magaermi og hjáveitu, bæði fyrir og eftir aðgerð. Mikil hætta geti verið á ferð fyrir einstaklinga með fíknivanda sem gangast undir slíkar aðgerðir. 

„Það eru ákveðin prógröm sem hafa sýnt að virki ef þau eru notuð og það sem þau gera er að þau koma persónuleika breytingum hjá fólki til baka inn í heilbrigðið í persónuleikanum,“ bendir Esther á. „Það er mjög algengt að fagaðilar búi til kerfi út úr þessum grunnkerfum sem eru búin að vera í gangi frá 1940,“ segir hún og telur kerfi eins og 12 spora kerfið og ýmis önnur sambærileg kerfi gera vel fyrir fólk sem glímir við fíknivanda.

Esther var gestur í Dagmálum ásamt Rut Eiríksdóttur, hjúkrunarfræðingi á Klíníkinni, þar sem þær tókust á um kosti og áhættuþætti efnaskiptaaðgerða undir stjórn Sonju Sifjar Þórólfsdóttur, blaðamanns.

Smelltu hér til að hlusta eða horfa á viðtalið í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert