Fara í plataðgerðir erlendis

Rut Eiríksdóttir og Esther Helga Guðmundsdóttir ræddu efnaskiptaaðgerðir og tengsl …
Rut Eiríksdóttir og Esther Helga Guðmundsdóttir ræddu efnaskiptaaðgerðir og tengsl þeirra við alkóhólisma í Dagmálum í dag. mbl.is/María Matthíasdóttir

Rut Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur á Klíníkinni Ármúla, segir að dæmi séu um að Íslendingar hafi farið á eigin vegum í efnaskiptaaðgerð erlendis en að raunverulega hafi ekki verið framkvæmdar aðgerðir á þeim. Þeir komi svo til Klíníkurinnar vegna þess að aðgerðin skilaði ekki árangri.

Þá komi í ljós að sjúklingarnir hafi verið skornir upp en að aðgerð hafi í raun ekki verið framkvæmd á meltingarfærum þeirra.

Tilfellin ekki mörg

Hún segir að tilfellin séu ekki mörg, en að þetta hafi raunverulega gerst. Hún telur að Klíníkin sjái þó ekki öll tilfellin því sjúklingar átti sig ekki á að maginn hafi ekki verið minnkaður í raun og veru.

„Það fara margir út, þá er ég ekki að tala um á vegum Sjúkratrygginga, eða í gegnum Reykjalund. Fólk fer sjálft. Við höfum séð einstaklinga fara út og það var eiginlega ekki gerð aðgerð. Það eru gerð skurðgöt, eitthvað gert smá. Svo er einstaklingnum bara kennt um. Að hann hafi ekki staðið sig nógu vel,“ segir Rut.

Rut og Esther Helga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í át- og matarfíkn, ræddu efnaskiptaðgerðir og tengsl þeirra við alkóhólisma í Dagmálum Morgunblaðsins í dag. Greint var frá því í síðustu viku að vísbendingar væru um að fólk sem gengist hefur undir slíkar aðgerðir sé líklegra til að þróa með sér alkóhólisma.

SÁÁ vinnur nú að því að kortleggja vandann.

Skima ætti fyrir fíknivanda

Esther Helga segir bráðnauðsynlegt að kanna tengslin og kortleggja vandann, en hún hefur fengið til sín einstaklinga í gegnum árin sem farið hafa í slíkar aðgerðir. Þær hafi hins vegar ekki skilað tilætluðum árangri. Hún segir að ekki sé skimað nægilega vel fyrir fíknisjúkdómum hjá þeim sem fara í aðgerðirnar.

„Ég hef áhyggjur af því að það er ekki skimað fyrir og gerð greining á því hvort viðkomandi sé að glíma við fíknivanda. Þegar einstaklingur glímir við fíknivanda, það sem næst gerist er að hann víxlar fíkninni sinni,“ segir Esther Helga. Hún bendir á að eftir aðgerðir líkt og hjáveitu- og magaermisaðgerðir eigi áfengi greiðara aðgengi inn í líkamann. „Upptakan er miklu hraðari á áfengi. Þá verður það líka að meira fíkniefni fyrir einstaklinginn. Þannig það er augljóslega hætta á ferð þarna fyrir þennan hóp og það hefur sýnt sig,“ segir Esther.

Esther er formaður alþjóðlegra samtaka um matarfíkn, Food Addiction Institute, og hefur unnið að því síðustu ár að vekja athygli á matarfíkn. Matarfíkn er ekki skilgreind sem fíknisjúkdómur en til stendur að leggja inn umsókn til bandaríska sálfræðingafélagsins (APA) um að fá hana viðurkennda og fellda inn í DSM-greiningarkerfið fyrir geðsjúkdóma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert