„Hættulegasta svæði í veröldinni“

María Lilja, Kristín og Bergþóra hafast nú við í egypsku …
María Lilja, Kristín og Bergþóra hafast nú við í egypsku höfuðborginni Kaíró og vinna það eljuverk að koma palestínskum fjölskyldum, sem fengið hafa dvalarleyfi á Íslandi, út af Gasasvæðinu og hefur þeim þegar orðið ágengt með eina fjölskyldu með langveika þriggja ára stúlku. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru svokölluð viðvörunarskot. Nú er búið að gefa það út að [Benjamín] Netanjahú [forsætisráðherra Ísraels] ætlar að sprengja flóttamannabúðir á Rafah sem hann segir að Hamas-samtökin stýri,“ segir María Lilja Þrastardóttir í samtali við mbl.is, stödd í Kaíró, en sprenging kvað fyrir skömmu við í búðunum í Rafah á Gasasvæðinu.

Að sögn Maríu skaut árásardróni flugskeyti að bifreið í flóttamannabúðunum og markar skotið upphaf gálgafrests sem Maríu er ekki kunnugt um hve langur sé, en að honum liðnum má að líkindum gera ráð fyrir mannskæðri árás Ísraelshers. „Ég veit bara að þetta er yfirvofandi, þetta gæti verið eftir tvo tíma eða eftir sólarhring,“ segir María.

Ástandið virkilega erfitt

„Við mætum alveg dásamlegu viðhorfi, hér eru allir mjög hjálplegir, fólkið yndislegt og mikil samkennd,“ segir María enn fremur, sem nú hefur dvalið um rúmlega vikutíma í Kaíró í Egyptalandi ásamt þeim Kristínu Eiríksdóttur og Bergþóru Snæbjörnsdóttur, en þær vinna að því á eigin vegum að koma palestínskum fjölskyldum, sem öðlast hafa dvalarleyfi á Íslandi, yfir landamærin frá Gasasvæðinu í Palestínu.

„Egyptar finna til með palestínskum bræðrum sínum og systrum þannig að hér eru allir boðnir og búnir að gera það sem þeir geta til að bjarga fólki þarna út. En þetta er virkilega erfitt ástand og við erum hvort tveggja leiðar og skúffaðar yfir því að hafa engin viðbrögð fengið frá okkar eigin stjórnvöldum,“ heldur María Lilja áfram og kveður engin svör hafa borist þeim frá íslenskum ráðuneytum um björgunarstarfið og hugsanlegar aðgerðir úr þeirri átt.

„Þetta eru þung skref“

„Það er hálfömurlegt að vera bara almennur borgari í þeirri stöðu að reyna að koma héðan út langveikum og slösuðum börnum sem eiga allan rétt á að vera á Íslandi, íslensk-palestínskum börnum. Þetta er eitthvað sem stjórnvöld gætu gert með einum tölvupósti og þetta tekur á, þetta eru þung skref,“ játar María Lilja.

Palestínskar konur syrgja ástvin á Al-Najjar-sjúkrahúsinu í Rafah í dag …
Palestínskar konur syrgja ástvin á Al-Najjar-sjúkrahúsinu í Rafah í dag í kjölfar enn einnar loftárásar Ísraelshers. AFP/Mahmud Hams

Kveður hún þó fjölskylduna, sem þeim stöllum hefur þegar tekist að koma út af Gasa og yfir til Egyptalands, mikið gleðiefni en í þeirri fjölskyldu er þriggja ára gömul langveik stúlka sem liggur á að koma undir læknishendur þar sem lyfjabirgðir hennar ganga til þurrðar nú á næstu vikum. Frá þessu hefur mbl.is greint.

IOM-skrifstofa Sameinuðu þjóðanna, International Organization for Migration, hefur, eftir því sem María Lilja greindi mbl.is frá í viðtalinu í gær, sem er handan efri hlekkjarins hér að ofan, sagst munu greiða fyrir för fjölskyldunnar og annarra dvalarleyfishafa til Íslands.

„Þjóðarmorð í beinni útsendingu“

„Núna er yfirvofandi árás á Rafah-svæðið og þetta er hættulegasta svæði í veröldinni, sérstaklega fyrir börn. Það er ekki matur þarna og það er ekki hreint vatn, þetta eitt og sér er nóg til að skelfing grípi um sig,“ segir María Lilja og kveður hverja mínútu mikilvæga úr því sem komið sé.

Þær María Lilja, Kristín og Bergþóra flugu til Kairó til …
Þær María Lilja, Kristín og Bergþóra flugu til Kairó til að hjálpa palestínskum fjölskyldum, sem fengið hafa dvalarleyfi á Íslandi, yfir landamærin frá Gasa. Ljósmynd/Aðsend

Hvað eruð þið í stakk búnar til að vera þarna lengi ef þarf?

„Við verðum hérna eins og þarf, það er ekkert sem heitir og ekkert annað í stöðunni. Við getum ekki snúið baki við þessu fólki eins og stjórnvöldin okkar eru búin að gera allan þennan tíma. Við getum ekki hummað þetta fram af okkur og horft í hina áttina. Þetta er yfirstandandi, við upplifum þjóðarmorð í beinni útsendingu,“ segir María Lilja.

Þrjár konur frá Íslandi

Ítrekar hún vonbrigði þeirra óformlegu sendierindrekanna þriggja frá Íslandi yfir íslenskum ráðherrum. „Nú var þetta mikið í fjölmiðlum í gær og við finnum það – bæði á viðbrögðum fjölmiðla og almennings á Íslandi – að það hafa orðið vatnaskil. Íslenskur almenningur vill hjálpa þessu fólki út,“ segir hún og bendir máli sínu til sannindamerkis á að landssöfnun sem hófst á Íslandi í gær hafi gengið vel þótt vitanlega sé aukins fjár þörf til verkefnisins.

Palestínumenn eru í alvarlegum nauðum staddir og kveður María Lilja …
Palestínumenn eru í alvarlegum nauðum staddir og kveður María Lilja heiminn horfa upp á þjóðarmorð í beinni útsendingu. AFP/Mahmud Hams

„Okkur langar bara að spyrja íslensk stjórnvöld hve mikið við, þrjár konur frá Íslandi, eigum að leggja á okkur. Fleiri eru tilbúnir að koma hingað út ef til þess kemur að við þurfum frá að hverfa og hugsa um okkar eigin börn. Hve lengi ætla þau [stjórnvöld] að draga lappirnar í þessu máli? Við erum búnar að sýna fram á að þetta sé hægt, þetta sé ekki þessi ómöguleiki. Maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum þetta vel menntaða og klára fólk kemst ekki lengra með hlutina en bara þessa sömu hringi aftur og aftur,“ segir María Lilja Þrastardóttir að lokum, stödd við björgunarstörf í Kaíró í Egyptalandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert