Þórunn greiðir úr flækjum fyrir Árna Pál

Þórunn Sveinbjarnardóttir sést hér á Alþingi árið 2011, árið sem …
Þórunn Sveinbjarnardóttir sést hér á Alþingi árið 2011, árið sem hún lét af þingmennsku. mbl.is/Eggert

„Það má segja að ég hafi m.a. þann starfa að greiða úr flækjum,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar, sem hefur verið ráðin aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar.

„Það er ákveðið flækjustig í því að vera formaður stjórnmálaflokks sem er í ríkisstjórn en vera ekki í ríkisstjórninni,“ bendir Þórunn á í samtali við mbl.is.

Aðspurð segist hún hafa tekið til starfa með formlegum hætti og hún bætir við hlæjandi að hún sé „gengin aftur“ innan Samfylkingarinnar, en sem kunnugt er lét hún af þingmennsku árið 2011.

Þórunn mun aðallega aðstoða Árna Pál en einnig veita flokknum aðstoð í komandi kosningabaráttu. „Ég hef verið í kosningabaráttu síðan ég man eftir, þannig að ég vona að það komi að einhverju gagni.“

Þegar Árni Páll var orðinn formaður Samfylkingarinnar þá kom hann að máli við Þórunni og spurði hvort hún gæti komið til starfa með honum. Þórunn segist hafa hugsað málið um hríð en á endanum hafi hún ákveðið að segja já enda „rann mér blóðið til skyldunnar. Það eru mikilvæg verkefni framundan fyrir flokkinn minn“.

Í mörg horn sé að líta og ljóst sé að menn verði að vanda sig og hafa góða yfirsýn yfir málin. Hún búi yfir stjórnmálareynslu sem komi vonandi að gagni.

Aðspurð segist Þórunn ekki hafa í huga að snúa aftur á þing. „Ég er búin með þann pakka að minnsta kosti í bili,“ segir hún.

„Formlega séð er ég titluð aðstoðarmaður en ég er hins vegar ennþá nógu hégómleg til þess að vilja bara vera kölluð verkstjóri,“ segir hún hlæjandi að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert