Gamla ljósmyndin: Innkast með frjálsri aðferð

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Innköst hafa reynst vopn fyrir knattspyrnulandsliðin okkar í gegnum árin. Mörk komu eftir innköst frá Ólafi Þórðarsyni og Aroni Einari Gunnarssyni hjá körlunum og hjá konunum nýttu Greta Mjöll Samúelsdóttir og Ásta Árnadóttir líkamlega burði sína til að taka innköst með öðrum hætti. 

Þegar aðstæður leyfðu fóru þær höfuðstökk. Héldu á boltanum og hlupu að hliðarlínunni. Þar settu þær boltann í jörðina og voru þá á hvolfi í smástund með bakið í völlinn. Notuðu síðan kraftinn til að kasta sér fram og grýta boltanum inn á völlinn í leiðinni. 

Þessari skemmtilegu mynd af Ástu Árnadóttur náði Ómar Óskarsson í landsleik Frakklands og Íslands í undankeppni EM 2009. Mættust liðin fyrir framan 4.600 áhorfendur í La Roche-sur-Yon í vesturhluta Frakklands 27. september 2008 og myndaði Ómar leikinn fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Frakkland hafði betur 2:1 en Ísland komst í lokakeppni EM í fyrsta skipti eftir umspilsleiki gegn Írum. 

Ásta Árnadóttir lék 37 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og 129 leiki í efstu deild með Þór/KA, Þór/KA/KS og Val. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert