Rannsaka ofbeldisverk N-Kóreu

Jung Gyoung-Il tókst að flýja fyrir 4 árum og berst …
Jung Gyoung-Il tókst að flýja fyrir 4 árum og berst nú fyrir réttindum fyrrum samfanga sinna

Suður-Kóreumenn rannsaka nú í fyrsta skipti opinberlega frásagnir flóttamanna úr fangabúðum í Norður-Kóreu, sem lýsa þar hræðilegum aðbúnaði og ofbeldi. Ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur lengi hunsað slíkar frásagnir til að styggja ekki nágrannann í norðri, en nýr forseti landsins hefur breytt þeirri stefnu.

Lee Myung-bak, sem kosinn var til embættis forseta fyrir tæpu ári síðan, hefur skipað mannréttindasamtökum landsins að taka viðtöl við flóttafólk sem áður hafa ekki fengið hljómgrunn fyrir frásagnir sínar, og síðar í vikunni verður haldin alþjóðleg ráðstefna um málefnið, en lýsingarnar eru margar ljótar.

Fyrrum fanginn Jung Gyoung-il, lýsir því með hryllingi þegar samfangi hans var eltur af grimmum varðhundum á flótta og loks tekin af lífi frammi fyrir aftökusveit, og aðrir fangar þvingaðir til að horfa á. „Fólk var lamað af ótta en enginn gat sagt neitt. Þetta var verri meðferð en dýr fá við slátrun,“ segir Jung.

Sjálfur var hann í haldi í fangabúðum úti fyrir höfuðborginni Pyongyang í um 3 ár, þar sem hann var ákærður fyrir njósnir og pyntaður ítrekað þar til hann játaði á sig upplognar sakir. Honum tókst að flýja árið 2004 ásamt eiginkonu sinni og tveimur dætrum. Hann segir að þeir 400 fangar sem haldið var í búðunum hafi nærst á lófafylli af hrísgrjónum á dag og verið látnir þræla í námum og verksmiðjum í 13-15 klst. daglega. Margir hafi látist vegna vannæringar, en aðrir hafi drepið skordýr og rottur til að halda sér á lífi. 

Fyrrum fangavörður, An Myeong-chul, sem gerðist liðhlaupi úr öðrum fangabúðum segir að þar hafi aðstæður verið jafnvel verri, en talið er að minnst 5 fangabúðir séu í N-Kóreu með um 150-200 þúsund föngum. „Okkur var ítrekað kennt að fangarnir væru landráðamenn og að við þyrftum að útrýma þremur kynslóðum úr fjölskyldum þeirra.“

George Bush hefur lýst því yfir að hans síðasta markmið í embætti sé að láta til skarar skríða gegn mannréttindabrotum N-Kóreu og hefur hann m.a.  samþykkt lög sem auðvelda flóttafólki þaðan að koma sér fyrir í Bandaríkjunum. Yfirvöld í N-Kóreu neita öllum ásökunum og segja aðgerðir Bandaríkjamanna og S-Kóreu lið í áætlun til að steypa stjórn landsins af stóli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert