Mesta réttarhneyksli í sögu Noregs?

Arne Treholt var náðaður árið 1992 og starfar nú á …
Arne Treholt var náðaður árið 1992 og starfar nú á Kýpur. mbl.is

Stjórnmálaritstjóri norska dagblaðsins Aftenposten, Harald Stanghelle, segir að reynist ásakanir um að norska lögreglan hafi falsað mikilvæg sönnunargögn í Treholts-málinu réttar sé það mesta réttarhneyksli í sögu Noregs. Það geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir norska réttarkerfið.

Fullyrt er í nýútkominni bók að norska lögreglan hafi falsað mikilvæg sönnunargögn í máli Arne Treholts sem var dæmdur í tuttugu ára fangelsi fyrir njósnir. Lögmaður hans hefur krafist þess að málið verði tekið upp að nýju vegna upplýsinganna.

Arne Treholt var hátt settur embættismaður í norska utanríkisráðuneytinu og handtekinn fyrir njósnir í janúar 1984. Hann var dæmdur í tuttugu ára fangelsi í einu þekktasta dómsmáli í sögu Noregs.

Í bókinni „Forfalskningen - Politiets løgn i Treholt-saken“ (Fölsunin - lygar lögreglunnar í Treholts-málinu) er því haldið fram að rannsóknarmenn lögreglunnar hafi falsað mikilvæg gögn sem notuð voru til að sanna sekt Treholts. Höfundar bókarinnar eru Geir Selvik Malthe-Sørenssen og blaðamaðurinn Kjetil Bortelid Mæland.

Ákæran á hendur Treholt byggðist meðal annars á skjalatösku sem var full af dollara-seðlum og lögreglan sagði að Treholt hefði fengið peningana fyrir að veita sovéskum og íröskum leyniþjónustumönnum leynilegar upplýsingar. Lögreglan sagði að skjalataskan hefði fundist við leynilega leit á heimili Treholts áður en hann var handtekinn. Höfundar bókarinnar segjast hafa fundið sannanir fyrir því að ljósmyndir, sem lögreglan tók af peningunum, hafi í reynd verið teknar eftir að Treholt var handtekinn. „Þær voru ekki teknar í íbúð Treholts. Líklega voru þær teknar á skrifstofu rannsóknarmanna í lögregluhúsinu í Ósló,“ hafa norskir fjölmiðlar eftir Geir Selvik Malthe-Sørenssen.

„Ásakanirnar virðast trúverðugri en margar aðrar kenningar sem lagðar hafa verið fram síðustu ár,“ segir Harald Stanghelle, stjórnmálaritstjóri Aftenposten. Hann segir að full ástæða sé til þess að málið verði tekið upp að nýju og rannsakað til hlítar. „Þetta snýst um trúverðugleika kerfisins.“

Stanghelle segir að ef ásakanirnar reynast réttar geti þær haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir réttarkerfið og vakið spurningar um réttaröryggið í landinu. „Þetta þýðir ekki að Arne Treholt sé saklaus, en þetta snýst um það að lögreglan hefur falsað sönnunargögn. Fölsun er það versta sem lögreglan getur gert í dómsmáli og í réttarríki.“

 Fjölmiðlar í Noregi hafa eftir embættismönnum í Ósló að þeir vilji lesa bókina áður en ákvörðun verði tekin um hvort taka eigi mál Treholts upp að nýju. Lögmaður Treholts krafðist þess að málið yrði tekið upp aftur.

Treholt er 67 ára gamall og var náðaður árið 1992 af heislufarsástæðum. Hann starfar nú sem kaupsýslumaður á Kýpur. Aftenposten hefur eftir Treholt að hann hafi gefið upp alla von um að málið verði tekið upp að nýju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert