Óeirðir í Aþenu

Slökkviliðsmenn og skipasmíðamenn stóðu í dag fyrir mótmælum gegn niðurskurði yfirvalda á Grikklandi. Mótmælendum lenti saman við lögreglu utan við þinghúsið í Aþenu.

Slökkviliðsmenn alls staðar að frá Grikklandi söfnuðust saman til að mótmæla yfir fjöldauppsögnum og launalækkunum. Slökkviliðsmenn segja að í ljósi þess að aldrei hafa alvarlegri skógareldar brunnið í landinu en í fyrra, þá séu það hættulegar sparnaðaraðgerðir að ætla að fækka slökkviliðsmönnum og lækka laun.

Slökkviliðsmenn eru hinsvegar ekki þeir einu sem láta í sér heyra, því mörg hundruð skipasmíðamenn flykktust að fjármálaráðuneytinu til að koma óánægju sinni á framfæri með áætlanir um að fækka störfum, lækka laun og loka starfsemi. Niðurskurður yfirvalda hefur hleypt illu blóði í verkalýðsfélög landsins sem hafa skipulagt hver mótmælin á fætur öðrum.

Nú undir kvöld sauð upp úr mótmælunum og til ótaka kom þegar óeirðalögregla hafði afskipti af aðgerðum mótmælenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert