Sviku út úr helfararsjóði

Minnismerki um helför gyðinga í Berlín.
Minnismerki um helför gyðinga í Berlín. FABRIZIO BENSCH

Sautján manns hafa verið ákærðir fyrir að svíkja út 42 milljónir Bandaríkjadala, um 4,6 milljarða króna, út úr sjóði sem er ætlað að bæta fyrir glæpi nasista gegn gyðingum í seinni heimstyrjöldinni. Meðal hinna ákærðu eru sex starfsmenn sjóðsins.

Sjóðurinn er fjármagnaður af Þýskalandi og hefur verið starfræktur allt frá árinu 1951. Greiðslurnar sem sviknar voru út voru annars vegar eingreiðslur upp á 3.600 bandaríkjadali, um 400.000 krónur, til þeirra sem lentu á vergangi vegna ofsókna nasista og hins vegar mánaðarlega styrki til fórnarlamba nasista sem eru með minna en 1,7 milljónir í árstekjur.

 Bandaríski saksóknarinn Preet Bharara var ómyrkur í máli og sagði að ef einhver sjóður hefði átt að vera óhultur fyrir græðgi og fjársvikum, þá væri það einmitt þessi sjóður. 

Greint var frá ákærunum í New York í gær. Starfsmennirnir eru sakaðir um að hafa frá 2000-2009, með sviksamlegum hætti, samþykkt yfir 5.500 beiðnir um aðstoð frá sjóðnum frá fólki sem engan rétt átti á slíkum beiðnum. Í staðinn héldu starfsmennirnir sex eftir hluta af greiðslunum til þeirra. 

Sakborningarnir eru ákærðir fyrir að hafa fengið aðra þátttakendur í svikamyllunni til að leggja fram persónuskilríki, s.s. vegbréf og fæðingarvottorð. Skjölin voru síðan fölsuð og látin í hendur hinna spilltu starfsmanna sem samþykktu greiðslurnar.

Sumir þeirra sem fengu greiðslur fæddust eftir að síðari heimstyrjöldinni lauk og að minnsta kosti einn þeirra var ekki gyðingur. Fjórir hafa þegar játað þátt sinn í málinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert