Maas sakar Trump um óheiðarleika

Donald Trump og Heiko Maas.
Donald Trump og Heiko Maas. AFP/Samsett mynd

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, hefur sakað Donald Trump Bandaríkjaforseta um óheiðarleika með því að hvetja stuðningsmenn sína til að kjósa tvisvar sinnum, sem er ólöglegt.

Þannig reyni forsetinn að fá fólk til að efast um bandarísku forsetakosningarnar.

„Við eigum Bandaríkjunum margt að þakka og landið er enn þá einn af okkar helstu bandamönnum en [...] það truflar mann að sjá bandaríska forsetann halda að hann gæti þurft á slíku að halda,“ sagði Maas við dagblaðið Bild.

„Ég trúi því að Bandaríkjamenn muni átta sig á þessari óheiðarlegu tilraun til að sá fræjum efasemda um gildi kosninganna, líklega með því markmiði síðar meir að sætta sig ekki við ósigur,“ bætti hann við.

Fyrr í vikunni sagði Trump að kjósendur gætu bæði póstlagt atkvæði sitt, sem hann segir lið í því að svindla á honum í kosningunum, og greitt atkvæði í kjörklefa til öryggis. Starfsmenn á kjörstað geti svo ákveðið hvaða atkvæði þeir skuli telja.

Forsetinn hefur hvað annað eftir sett spurningarmerki við það hvort hann myndi sætta sig við ósigur í forsetakosningunum í nóvember. Hann sakar Demókrataflokkinn um að gera allt sem í hans valdi stendur til að breyta niðurstöðu kosninganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert