Bæklingur um Ísland hluti af verkinu

Íslenski skálinn í Feneyjum.
Íslenski skálinn í Feneyjum.

Verk myndlistarmannsins Christophs Büchel, sem er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, hefur vakið talsverða athygli að undanförnu. Verkið nefnist Moskan, eða The Mosque á ensku, og hefur það verið sett upp í gamalli kirkju frá 10. öld.

Á heimasíðu verksins, sem einnig er hluti af verkinu sjálfu, má meðal annars finna bækling með upplýsingum fyrir erlenda ríkisborgara sem hafa í hyggju að koma hingað til lands.

Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, segir í samtali við mbl.is heimasíðu verksins og allt sem á henni birtist vera hluta af verkinu sjálfu.

„Hluti af hugmynd verksins er „immigration“ og búferlaflutningar. Í þessu fræðslusetri sem er hluti af verkinu og er inni í moskunni verða til dæmis námskeið í íslensku og ítölsku sem á að auðvelda fólki að flytja til þessara tveggja landa. Þetta er stór hluti af hugmynd listaverksins,“ segir Björg. 

Spurð hvort beinlínis sé verið að hvetja fólk til þess að flytja til Íslands svarar Björg: „[Það er] ekkert endilega verið að hvetja til þess heldur benda á ýmsa hluti eins og til dæmis að hlutfall innflytjenda á Íslandi er lægst í heiminum.“

Á heimasíðu verksins má, auk bæklingsins, finna upplýsingar um íslam og tengla sem til að mynda tengjast heimasíðu Félags múslíma á Íslandi og Félagi múslíma í Feneyjum. Þar er einnig ljósmynd sem sýnir lóð fyrirhugaðrar mosku í Reykjavík.

„Mikilvægar upplýsingar“

Upplýsingabæklingurinn sem um ræðir er gefinn út af innflytjendaráði og hefur að geyma „mikilvægar upplýsingar til ríkisborgara utan EES- og EFTA-ríkjanna“ sem hafa í hyggju að flytja til Íslands. Er hann bæði ritaður á íslensku og ensku.

Á síðu fjögur í bæklingnum segir: „Upplýsingarnar í þessum bæklingi eru fyrir ríkisborgara frá löndum Afríku, Asíu, Suður-Ameríku, Norður-Ameríku, Eyjaálfu og fyrir ríkisborgara þeirra Evrópuríkja sem hvorki eiga aðild að EES- né EFTA-samningnum. [...] Upplýsingarnar eru einnig fyrir ríkisborgara Rúmeníu og Búlgaríu sem koma hingað til lands til að stunda launaða vinnu því þeir þurfa dvalar- og atvinnuleyfi.“

Í efnisyfirliti hans kemur til að mynda fram að finna megi upplýsingar um íslensk lög og reglur, löglega búsetu á Íslandi, vinnu á Íslandi, heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og húsnæði svo fátt eitt sé nefnt.

Fyrri fréttir mbl.is:

Mótmælt við moskuna í Feneyjum

Verður moskunni lokað?

Stappað út úr dyrum moskunnar

Töldu moskuna ógna öryggi

Moska í íslenska skálanum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert