Lög virt að vettugi

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður segir í samtali við mbl.is að það hljóti að teljast afar óvenjulegt að ráðningarsamningur sé á milli biskups og framkvæmdastjóra Biskupsstofu og að framkvæmdastjórinn ráði yfirmann sinn til starfa.

Þjóðkirkj­an gerði ráðning­ar­samn­ing til 28 mánaða við Sr. Agnesi M. Sigurðardóttur biskup sama dag og for­seti kirkjuþings ákvað að fram­lengja ráðning­ar­tím­a hennar. Ragn­hild­ur Ásgeirs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Bisk­ups­stofu, skrifaði und­ir samn­ing­inn fyr­ir hönd Þjóðkirk­unn­ar en hún er und­irmaður bisk­ups.

Ekki heimild að lögum

„Þess utan hefur biskupsstofa ekki heimild að lögum til að gera ráðningarsamning við prestlærðan aðila sem biskup án kosningar. Kveðið er á um í lögum um hvernig biskup skuli kjörinn, sbr. 10. gr. laga um þjóðkirkjuna, og er það ekki með ráðningarsamningi við undirmann sinn. Kjör á lögum samkvæmt að fara fram í samræmi við starfsreglur kirkjuþings þar sem kveðið er á um hvernig staðið skuli að kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa. Ráðningarsamningurinn er þegar af þeirri ástæðu, að mínu mati, að engu hafandi.“

Þá segir hún þá staðreynd óumdeilanlega vekja upp spurningar að nýlega fór fram kjör vígslubiskups í Skálholti og að við framkvæmd þeirra kosninga var farið að lögum og reglum en að lög skuli aftur á móti virt að vettugi þegar kemur að biskupi æðsta yfirmanni þjóðkirkjunnar.

Auður sendi inn kæru til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar fyrir hönd skjólstæðings síns 10. maí þar sem gerð er krafa um að viðurkennt verði að sökum umboðsskorts biskups verði ákvarðanir hennar í raun ógildar.

Enn ein himnasendingin

Kirkjuþing er kosið að vori og er almennt haldið að hausti. Kirkjuþingsfulltúar, sem kjósa biskup, eru 31 í níu kjördæmum. Mbl.is leitaði til Óskars Magnússonar kirkjuþingsfulltrúa Suðurprófastsdæmis. Hann kaus að tjá sig sem minnst um málið en sagði þó í samtali við mbl.is að um væri að ræða enn eina himnasendinguna frá biskupi til þjóðkirkjunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert