Vill lokabúsetuúrræði með takmörkunum

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það lá alveg ljóst fyrir að með samþykkt þessara laga væri verið að taka þjónustu af fólki. Þegar þú ert að svipta fólki þjónustu eins og húsnæði og framfærslu þá geturðu ekki sett þessi lög með þessum afleiðingum en líka veitt þjónustuna á sama tíma. Þá fellur þetta allt um sjálft sig.“

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is um gagnrýni sem ríkisstjórnin hefur mætt frá sveitarfélögunum sem saka ríkið um að velta málefnum hælisleitenda yfir á sveitarfélögin. 

Eins og greint hefur verið frá missa þeir hælisleitendur sem hafa hlotið synjun um alþjóðlega vernd alla þjónustu þegar að 30 dagar eru liðnir frá synjun. Eru þeir þá án kennitölu, réttinda og allra úrræða. Sveitarfélögin hafa því setið uppi með hælisleitendur án húsnæðis að þessum 30 dögum liðnum en ef sveitarfélögin útvega þeim ekki húsnæði eiga hælisleitendur í hættu á að enda á götunni.

Minnir á lokuð landamæri

Guðrún segir að það megi búast við lagafrumvarpi í haust sem býður fram lausn við þessu vandamáli. Hún segist hafa skilning á því að þetta sé sársaukafull aðgerð en ítrekar að hún verði að hafa trú á því kerfi sem er til staðar til að skera úr um hvort fólk hljóti vernd eða ekki.

„Ég vil minna á það að Ísland er með lokuð landamæri og ef við ætlum ekki að hlíta þeim niðurstöðum sem fást frá þessum tveimur stjórnsýslustigum, af hverju erum við þá með þetta kerfi?“

Vísa fólki úr landi ekki á götuna

„Það er mat okkar í ráðuneytinu að sveitarfélögunum ber ekki skylda til að sinna flóttamönnum,“ segir Guðrún. Spurð hvað komi þá í staðinn fyrir flóttamenn sem enda væntanlega á götunni ef sveitarfélögin útvega þeim ekki húsnæði segi hún:

„Nú liggur það alveg ljóst fyrir að við erum með verndarkerfi á Íslandi þar sem fólk getur beðið um vernd ef að þeim stafar lífshætta. Við erum með kerfi þar sem sú umsókn fer í gegnum tvö stjórnsýslustig og þegar að fólk er búið að fá höfnun á báðum stigum þá liggur það alveg ljóst fyrir að þau eru þá í ólögmætri dvöl í landinu.“

Hún ítrekar að fólk hafi 30 daga eftir synjun til að hlíta fyrirmælum yfirvalda og fara úr landi. „Eins og verið er að ýja hér að þá er ekki verið að vísa fólki á götuna það er verið að vísa fólki úr landi.“

Hyggst setja upp nýtt búsetuúrræði

Spurð hvað eigi þá að verða um þá sem fari ekki eftir fyrirmælum yfirvalda og missi alla þjónustu segir Guðrún að það þurfi að finna úrræði fyrir þann hóp.

„Það þarf lagabreytingu til þess. Ég hef í hyggju að leggja fram að hér verði tekið upp lokabúsetuúrræði (e. detention center) eins og nágrannalönd okkar eru með. Það er þá húsnæði fyrir fólk sem hefur ekki hlotið dvöl í landinu. Þetta er húsnæði á meðan fólk bíður. Þetta húsnæði er takmörkunum háð,“ segir hún en tekur ekki fram hvaða takmarkanir það séu.

Spurð hvort þau muni endurskoða útlendingalögin í haust svarar hún því játandi og segir þau nú vera í skoðun.

Fólk eigi að fara eftir lögum

Spurð hvort að hún sé vongóð um að þetta fyrirkomulag þar sem flóttamenn missa öll réttindi 30 dögum eftir að þau fá synjun um vernd skili þeirri niðurstöðu að fleiri flóttamenn hlíti fyrirmælum yfirvalda um að fara úr landi segir Guðrún það skipta miklu máli að fólk fari eftir fyrirmælum og lögum á Íslandi.

„Ég biðla til fólks að hlíta íslenskum lögum og ákvörðunum íslenskra stjórnvalda. Hér er búið að fara yfir þessi mál gaumgæfulega og hér er hópur fólks sem hefur ekki rétt hér til dvalar og búið að komast að þeirri niðurstöðu að fólk eigi að yfirgefa landið og þá ber fólki að gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert