Netfíkn færist í vöxt

Netfíkn eða netárátta færist í vöxt meðal ungra karlmanna undir þrítugu. Þeir ánetjast tölvuleikjum, einkum svokölluðum fjölda þátttökuleikjum, spjallrásum og ýmsu öðru sem Netið hefur upp á að bjóða. Afleiðingar eru þær að þeir vanrækja allt annað, svo sem nám, starf, vini og fjölskyldu.

Í Tímariti Morgunblaðsins sem kemur út á morgun segja sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Björn Harðarson að fylgikvillar netfíknar séu oft þeir sömu og hjá vímuefnaneytendum, t.d. sinnuleysi, félagsleg einangrun, þunglyndi, skapofsaköst og veruleikafirring. Einar Gylfi segir vandamál tengd tölvuleikjanotkun býsna algeng; "þetta er eitt af því sem við sjáum aukast“, segir hann og kveðst spyrja alla sem til hans leita hvernig tölvunotkun þeirra er háttað, líkt og hann spyr alla sem til hans leita um áfengisnotkun þeirra.

„Fyrir áratug hefði maður ekki spurt um tölvunotkun en þetta er orðið ein af rútínuspurningunum í dag,“ segir hann. Björn segir að net- og leikjafíkn feli ekki í sér alvöruvímu, en sé hegðun sem menn missi stjórn á, enda eyði ákafur tölvuleikjamaður oft frá átta upp í sextán tímum á sólarhring í leikina.

Netfíkn hefur ekki aðeins áhrif á þann, sem henni er haldinn, heldur einnig fjölskyldu og nánasta umhverfi. Þannig segir móðir pilts, sem var átján ára þegar hann ánetjaðist fjöldaþátttökuleik, að ástandið hefði verið eins og að vera með sjúkling á heimilinu. Og viðbrögðin þegar hún tók til sinna ráða að hefta aðgang hans að tölvunni eins og hún hefði tekið flösku af drykkjusjúklingi. „Hann sagði að það væri hundleiðinlegt að lifa og var hreinlega niðurbrotinn að hafa ekki Netið. Þetta var skelfilegt ástand og honum leið greinilega mjög illa.“

Dæmi eru um að menn hafi misst vinnuna vegna þess að þeir eru of uppteknir í tölvuleikjum og tengdri afþreyingu. „Þetta virðist ná svo miklum tökum á fólki að það missir algerlega stjórnina og lætur þetta fara í svona far, jafnvel þótt það viti af því að þetta er vandamál og vilji ekki hafa hlutina svona.

Það bara ræður ekki við þessa hegðun,“ segir rekstrarstjóri í tölvufyrirtæki, sem þurfti að segja upp 25 ára starfsmanni vegna þessarar áráttu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert