Snýst ekki um demanta og skart

Fjölskylda gengur framhjá röð af flóttamönnum sem bíða eftir mat …
Fjölskylda gengur framhjá röð af flóttamönnum sem bíða eftir mat við tímabundið húsnæði í Aþenu. AFP

Það fer fyrir brjóstið á Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hvernig um það er rætt í dönskum og erlendum miðlum að stjórnvöld hyggist leggja hald á skartgripi og önnur verðmæti til að fjármagna mótttöku flóttafólks.

Erlendir fjölmiðlar hafa gert mikið úr tillögunum sem liggja fyrir þinginu og líkt þeim við eignaupptöku nasista í seinni heimstyrjöldinni. En forsætisráðherrann segir umfjöllunina á villigötum og segir hana gefa ranga mynd af Danmörku.

Frétt mbl.is: Vilja leggja hald á verðmæti

Rasmussen svaraði spurningum danskra fjölmiðla þegar hann mætti til fundar í Brussel í gær og sagði að ef til vill væri tími til kominn til að hætta að tala um töskur fullar af demöntum og að taka skartgripi af fólki, en um það snérist málið alls ekki.

„Það er talað um að í Danmörku sé það þannig að þú sérð um þig sjálfur ef þú getur,“ sagði ráðherrann og benti á að sumir hælisleitenda ættu talsverðar eignir við komuna til landsins.

„Ef maður er efnaður sér maður um sig sjálfur og ef maður er ekki efnaður borgar samfélagið. Það gildir um bótaþega og það gildir einnig um hælisleitendur.“

Lars Løkke Rasmussen á Northern Future Forum í október.
Lars Løkke Rasmussen á Northern Future Forum í október. mbl.is/Styrmir Kári

Í frétt Politiken um málið er m.a. fjallað um viðbrögð bandarískra og breskra miðla við tillögunum um að leggja hald á eignir flóttafólks til að mæta kostnaði, en Daily Beast sagði „sparkað í liggjandi mann“ og í frétt Washingon Post var minnst á þjófnað nasista á gulli og skartgripum gyðinga.

Rasmussen sagðist vel skilja hvaða mynd umfjöllun erlendra miðla gæfi af Danmörk, en hún væri röng. Spurður að því hver bæri ábyrgð á þeirri mynd sem dreginn hefði verið upp í tengslum við flóttamannakrísuna sagði ráðherrann að við því væri ekkert einhlítt svar.

„Það er verkefni okkar allra að gefa rétta mynd. Það er að stórum hluta verkefni okkar sem stjórnmálamanna,“ sagði Rasmussen, en málið snérist einnig um það hvernig fjölmiðlar túlkuðu umræðuna.

Ráðherrann sagði einnig að Bandaríkjamenn hefðu ekki skilning á hinu danska módeli.

„Bandaríkin eru annars konar samfélag þar sem maður sér í raun alfarið um sig sjálfur. Danmörk er velferðarsamfélag, samfélag altækra velferðarréttinda, sem flestir Bandaríkjamenn skilja ekki. Þegar maður talar við Bandaríkjamenn, maður við mann, og útskýrir þau réttindi sem við höfum ef við missum vinnuna eða veikjumst, þá eiga þeir mjög erfitt með að skilja það.“

Rasmussen sagði að það tillögurnar þyrfti að skoða í þessu samhengi; þ.e. að ef manneskja væri efnuð greiddi hún sjálf fyrir þjónustu. Hann sagði að gera þyrfti sömu kröfu til hælisleitenda og danskra bótaþega. Það væri eðlilegt og sanngjarnt.

Politiken sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert