Hefur heimsótt 124 lönd í hjólastól

Renee Bruns fór til Madagaskar á dögunum.
Renee Bruns fór til Madagaskar á dögunum. Skjáskot/Instagram

Renee Bruns hefur ferðast til 124 landa í hjólastól. Bruns vildi alltaf taka sér frí til þess að ferðast og hafði sparað fyrir því í fimmtán ár. Eftir heimsfaraldur upplifði hún kulnun og ákvað því að nú væri tíminn kominn. Hún sagði upp starfi sínu í tryggingageiranum og fór á flakk.

„Ég hef notað hjólastól allt mitt líf en ég fæddist með sjúkdóm sem leggst á beinin. Ég varði því æskunni í að ferðast um Bandaríkin í leit að viðunandi meðferðarúrræðum. Ferðalögin voru tímælalaust kostir sjúkdómsins,“ segir Renee Bruns í viðtali við The Times.

Var hrædd við óvissuna

„Ég ætlaði að taka eitt ár undir ferðalög. Ég vissi að ég vildi ferðast um Asíu og þá helst Indónesíu, Malasíu og Singapúr. Ég keypti mér miða til Balí og lét það svo ráðast hvað tæki við.“

„Ég var mjög hrædd áður en ég lagðist í ferðalagið. Ég reyndi að lesa mér til um hvern stað. Sum lönd eru mjög góð fyrir fólk sem notar hjólastól en önnur ekki. Aðgengileiki þýðir ekki það sama alls staðar. Ég óttaðist að lenda á hóteli þar sem ég kæmist ekki inn, eða að baðherbergin væru ekki nógu stór fyrir mig. Ég gæti mögulega skriðið upp stiga en það væri verra að þurfa að skríða inn á baðherbergi.“

„Ég hafði ferðast um víða veröld en alltaf bara í nokkrar vikur í senn og alltaf með ástvin með mér. Annaðhvort foreldra, systkin, vini eða maka. Nú var ég hins vegar ein á ferð.“

Verst að vita aldrei með hjólastólinn

„Ég átti því von á ýmsum áskorunum. Það var hins vegar verst að vita aldrei hvernig farið yrði með hjólastólinn í flugferðunum. Ég gat aldrei vitað hvort hann yrði geymdur um borð eða yrði tékkaður inn. Í fyrri ferðum hefur hjólastóllinn oft skaddast á ferðalögum og ég óttaðist að það kæmi fyrir þegar ég kæmi á nýjan áfangastað, algerlega ein.“

„Einu sinni lenti hjólastóllinn minn í öðru landi en ég. Það var skelfileg upplifun. Næsta flugferð var ekki fyrr en eftir tvo daga og þeir hjólastólar sem voru í boði fyrir mig voru of stórir og óþægilegir. Ég var því mest inni á hótelherbergi og fékk minn hjólastól aftur nokkrum dögum seinna.“

Þarf oft að horfa á úr fjarlægð

„Áhugaverðustu staðir margra landa eru fornar borgir eins og t.d. Angkor Wat í Kambódíu. En þetta eru einnig erfiðustu staðirnir fyrir mig og skoða og oftar en ekki þarf ég að horfa á þá úr fjarlægð, úr bíl eða á kaffihúsi.“

„Þá hef ég oft bókað hótelherbergi sem eru skráð sem aðgengileg fötluðum en þegar ég mæti á staðinn þá eru þrjú til fjögur þrep upp að herberginu. Þá eru baðherbergin oft of þröng og ég hef þurft að skríða á klósettið.“

„Ég hef þó ekki gefist upp. Ég virkilega vil sjá heiminn. Ef það þýðir að ég þarf að hafa meira fyrir því en aðrir þá mun ég halda áfram að berjast. Annars myndi ég fara á mis við alla þessa fegurð.“

Góðmennska fólks áberandi víða

„Þegar ég var í Marokkó þá datt skrúfa úr hjólastólnum. Þrír menn sem voru við vinnu úti á götu stoppuðu og tóku í sundur sín mótorhjól til þess að finna skrúfu sem gæti passað í hjólastólinn minn. Þeir fóru ekki fyrr en þeir löguðu stólinn minn. Skrúfan entist svo alla ferðina.“

„Í Sri Lanka kom ég á hótel og fann að það voru nokkur þrep upp að móttökusvæðinu. Starfsfólkið bar mig í hjólastólnum mínum og lofuðu að byggja ramp. Ég sagði þeim að það væri óþarfi en þegar ég vaknaði daginn eftir var kominn haganlega gerður rampur.“

„Sögurnar sem ég á af slíkri góðmennsku fólks eru óteljandi og það er dýrmætt að fá að upplifa þessa hlið mannkyns.“

Þegar Bruns var við það að gefast upp þá tóku …
Þegar Bruns var við það að gefast upp þá tóku leiðsögumenn málin í sínar hendur til þess að tryggja að hún kæmist að útsýnisstað í Madagaskar. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert