Taílenskur hermaður drap að minnsta kosti 12 manns

Lögregla á vettvangi skotárásarinnar.
Lögregla á vettvangi skotárásarinnar. Ljósmynd/Twitter

Margir eru sagðir látnir í skotárás í borginni Khorat í Taílandi eftir að hermaður hóf skothríð á fjölda fólks. Fjöldi erlendra miðla greinir nú frá því að minnsta kosti 12 séu látnir og fleiri særðir.

„Hann notaði vélbyssu og skaut á saklausa borgara sem slösuðust margir eða létu lífið,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Korat í samtali við fréttastofu AFP. 

Fréttastofa BBC greinir frá því að skotárásin virðist hafa átt sér stað nálægt verslunarkjarna í borginni Korat sem er norðaustur af höfuðborginni Bangkok. 

Leit að manninum stendur yfir

Samkvæmt ýmsum erlendum fjölmiðlum stendur víðtæk leit lögreglu og hersins að hermanninum nú yfir. Svæði í um tveggja kílómetra radíus frá verslunarkjarnanum hefur verið lokað og talið er að maðurinn sé í felum þar. Útgöngubann hefur verið sett á í borginni.

Hermaðurinn er sagður hafa stolið jeppabifreið og skotvopni af herstöð sem hann dvaldi á, keyrt að verslunarkjarnanum og hafið skotárás. Svo virðist sem hann hafi verið virkur á samfélagsmiðlum á meðan.

Streymdi beint frá árásinni

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Tælands sagði í samtali við fréttastofu BBC að Jakraphanth Thomma, liðsforingi í tælenska hernum, hafi ráðist á yfirmann sinn áður en hann stal byssu og skotfærum af herstöðinni. Hann hafi svo keyrt út af herstöðinni og hafið skotárás á búddahof og verslunarkjarna.

Bangkok Post greinir frá því að Thomma hafi streymt beint frá árásinni á Facebook Live og einnig gefið sér tíma til að birta mynd af sjálfum sér með rifflinum og skrifað við myndina að hann væri þreyttur. Facebook-síða hans hefur verið gerð óvirk.

Sami fjölmiðill greinir frá því að hann hafi myrt yfirmann sinn og tvo aðra á herstöðinni áður en hann flúði þaðan á stolnum jeppa.

Þessi mynd hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum í tengslum …
Þessi mynd hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum í tengslum við skotárásina. Hún er sögð vera af árásarmanninum, Jakraphanth Thomma, og að hann hafi sett hana inn á milli skothríða. Ljósmynd/Twitter

 Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert