Boða 24 tíma lokun borgarinnar

Serbar loka einni af aðalgötum Belgrad á jóladag.
Serbar loka einni af aðalgötum Belgrad á jóladag. AFP/Andrej Isakovic

Serbneskir aðgerðarsinnar hyggjast loka Belgrad, höfuðborg Serbíu, í 24 klukkustundir á föstudag til að mótmæla meintum kosningasvikum.

Niðurstöðum þingkosninganna 17. desember hefur verið harðlega mótmælt, þar sem flokkur Aleksandars Vucic forseta, hægri popúlistaflokkurinn Framfaraflokkurinn, lýsti yfir stórsigri. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í Serbíu hafa gagnrýnt framkvæmd kosninganna og haldið því fram að misræmi hafi verið í talningu atkvæða.

Hundruð mótmælenda söfnuðust fyrir framan heimspekideild háskólans í Belgrad í dag. „Við tilkynnum 24 klukkustunda lokun (e. blockade) á föstudaginn,“ sagði aðgerðarsinninn Ivan Bijelic á fundinum.

Steinum kastað í ráðhúsið

Sagði hann að lokun borgarinnar myndi hefjast eftir hádegi en vegatálmar verði fjarlægðir á laugardag svo að fólk geti tekið þátt í öðrum mótmælum þann dag.

Mótmælendur köstuðu steinum í ráðhús Belgrad.
Mótmælendur köstuðu steinum í ráðhús Belgrad. AFP/Andrej Isakovic

Mótmælendur hafa sett upp einstaka vegatálma í borginni og krafist þess að úrslitin verði ógild og haldnar verði nýjar kosningar.

Mótmælin náðu hámarki á sunnudagskvöld þegar mótmælendur reyndu að ráðast inn í ráðhús Belgrad og lögregla beitti táragasi. Mótmælendur notuðu fánastangir, steina og egg til að brjóta rúður ráðhússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert