Stal úr skartgripaverslun

Lögreglan fékk tilkynningu um að verið væri að brjótast inn í skartgripaverslun í miðborginni á tólfta tímanum í gærkvöldi. Þar hafði rúða verið brotin og skarti stolið úr versluninni. Skömmu síðar handtók lögreglan mann með þýfið og er hann nú vistaður í fangageymslum lögreglunnar. 

Fyrr um kvöldið hafði verið tilkynnt um innbrot og þjófnað í Garðabænum en þar höfðu húsráðendur  farið að heiman yfir helgina og þegar þau komu heim í gærkvöldi var búið að brjótast inn og stela verðmætum.

Í nótt barst lögreglu ábending um menn sem voru að brjótast inn í bifreið í Austurbænum (hverfi 108). Einn var handtekinn á vettvangi og karl og kona skömmu síðar þar skammt frá en þau höfðu farið af vettvangi.

Í dagbók lögreglunnar segir að fólkið hafi komið á bifreið sem það skildi eftir á vettvangi en það er grunað um hylmingu og brot á vopnalögum. Þau voru vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Síðdegis í gær voru síðan höfð afskipti af manni sem er grunaður um hnupl úr verslun í Kópavoginum en hann hefur ítrekað verið stöðvaður við búðahnupl.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert