Reyndi að kveikja í innanstokksmunum

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðili var handtekinn í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti og vistaður í fangaklefa eftir að hafa valdið töluverðu tjóni í íbúð annars aðila og kastað til innanstokksmunum og skemmt.

Sá handtekni var undir töluverðum áhrifum vímuefna. Hann hafði einnig reynt að kveikja í innanstokksmunum en án árangurs.

Reyndi að komast inn í aðrar íbúðir

Tilkynnt var um ofurölvi mann í stigagangi fjölbýlishúss í Reykjavík. Hann bjó í húsinu en var ráfandi um stigaganginn og reyndi ítrekað að komast inn í aðrar íbúðir. Að lokum var aðilinn handtekinn vegna ölvunarástands og vistaður í fangaklefa og fengu íbúar í húsinu svefnfrið í kjölfarið, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tvær líkamsárásir

Tilkynnt var um líkamsárás í heimahúsi í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Gerandinn var farinn af vettvangi þegar lögreglan kom að. Lögreglan ræddi við aðilann sem varð fyrir árásinni.

Einnig var tilkynnt um líkamsárás á veitingahúsi í umdæmi lögreglunnar í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ. Lögreglan fór á vettvang og ræddi við þann sem varð fyrir árásinni.

Ekið á ljósastaur

Í sama umdæmi var bifreið ekið á ljósastaur. Lögregla fór á vettvang og ræddi við ökumann. Þá kom slökkvilið og hreinsaði upp olíu sem lak frá bifreiðinni. Ökumaður var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.

Tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki og verðmætum stolið í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi.

Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert