Aldrei minni stuðningur við ríkisstjórnina

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuðningur við núverandi ríkisstjórn hefur aldrei mælst minni ef marka má niðurstöður Þjóðarpúls Gallup. Könnunin var gerð dagana 1. júní til 2. júlí. Heildarúrtak var 11.331 og tóku tæplega 49% aðspurðra afstöðu.

Um 35% þeirra segjast styðja sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur en til samanburðar sögðust um 37% styðja sitjandi ríkisstjórn í síðasta mánuði. Stuðningur við stjórnarflokkana var um 54% í Alþingiskosningunum árið 2021.

Framsóknarflokkurinn mælist með 8,7% fylgi og tapar 1,5%. Vinstri græn mælast með 6,2% fylgi og bæta við sig 0,5% en Sjálfstæðisflokkur mælist með óbreytt fylgi, 20,8%.

Samfylkingin áfram stærst

Samfylkingin mælist enn með mest fylgi allra flokka en fylgi flokksins mælist óbreytt í 28,4%. Píratar mælast með 9,7% og tapa 0,4%. Viðreisn mælist með 8,1% fylgi og bætir við sig 0,5%. Miðflokkur mælist með 7,8% fylgi og bætir við sig 0,9%.

Flokkur fólksins mælist með 5,7% og bætir við sig 0,2%. Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 4,6% og tapar 0,3% fylgi.

Ef þetta yrðu niðurstöður Alþingiskosninga væri ekki hægt að mynda nýja ríkisstjórn nema með að minnsta kosti aðkomu þriggja flokka, þar á meðal Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert