„Rætnara og persónulegra en oft áður“

Alexandra Briem lýsti yfir þakklæti í garð stjórnvalda í ræðu …
Alexandra Briem lýsti yfir þakklæti í garð stjórnvalda í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í dag sagði Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, að mikilvægt væri að koma í veg fyrir það að erlend hatursorðræða og fordómar í garð hinseginsamfélagsins nái fótfestu á Íslandi.

Þá kvaðst Alexandra, sem sjálf er trans kona, þakklát fyrir þverpólitískan og ópólitískan stuðning sem hinseginsamfélagið hefur upplifað í kjölfar umræðu sem skapast hefur varðandi hinseginfræðslu og kynfræðslu barna og ungmenna. 

Umræðan hafi sprungið fram með offorsi

„Umræða síðustu daga hefur verið erfið,“ sagði Alexandra þegar hún hóf ræðu sína á borgarstjórnarfundi í dag. 

„Bakslagið sem við höfum verið að upplifa í réttindabaráttu hinsegin fólks hefur sprungið fram með offorsi sem ég hefði ekki átt von á að sjá. Upplýsingaóreiða, lygar og rætnar persónulegar árásir.

Ég hef séð mynd af mér í dreifingu á samfélagsmiðlum með texta um að ég sé veik á geði, með vísun til þess að ég sé trans, og umræðan sem fylgdi var ekki falleg, ég hlutgerð og talað mjög illa um mig. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég hef upplifað svoleiðis, en rætnara og persónulegra en oft áður.“

Innflutt bandarískt menningarstríð

Í ræðu sinni sagðist Alexandra bakslagið í réttindabaráttu hinseginfólks vera hluta af innfluttu menningarstríði frá Bandaríkjunum þar sem öllu sé tjaldað til til þess að skapa ótta og óöryggi gagnvart minnihlutahópum. Þá hefðu hópar hér á landi tekið upp þá orðræðu sem borið hafi á í Bandaríkjunum í heilu lagi. 

Erlendis hefur verið unnið í því að einangra þau sem eru reið og upplifa sig afskipt, ýta undir tortryggni og ýta þeim frá öllum sem gætu komið með réttar upplýsingar eða svarað fyrir þær ásakanir sem í samsærunum felast. Þegar það hefur tekist eru svo byggðar upp fáránlegar samsæriskenningar sem engin gætu ímyndað sér sem ekki eru inni í því upplýsinga-svartholi,“ sagði Alexandra. 

Þakklát þverpólitískri samstöðu

Loks kom Alexandra á framfæri þökkum til stjórnvalda á Íslandi, sem hún sagði að hefðu brugðist við umræðunni að undanförnu með magnaðri samstöðu og stuðningi. 

Við megum alls ekki leyfa þessari vitleysu að dreifast til Íslands og ná hér fótfestu. Allir stjórnmálaflokkar hér hafa til þessa staðið sig í því hingað til að segja skýrt að þessi barátta muni ekki ná hér fótfestu, þeir muni ekki sigla á þau mið að sækja fylgi á kostnað jaðarsetts hóps og þeir muni ekki taka þátt í þeirri upplýsingaóreiðu og lygum sem haldið er á lofti. Það er ekki sjálfgefið.“

mbl.is